Sundurlaus málflutningur Oddnýjar einkennist af heift

Oddný Harðardóttir alþingismaður Samfylkingar, sem eitt sinn var fjármálaráðherra í nokkra mánuði, reyndar í hinni illræmdu vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur eftir að sú ríkisstjórn missti þingmeirihluta sinn, skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu á skírdag. Fátt, ef nokkuð, í þeirri grein ber langri þingreynslu eða kynnum af störfum fjármálaráðherra vitni.

Oddný er meðal elstu og reyndustu þingmanna þjóðarinnar og hefur níu mánaða starfsreynslu sem fjármálaráðherra. Vegna langrar þingreynslu mætti ætla að unnt væri að gera kröfur til hennar um málefnaleg skrif sem byggð væru á staðreyndum í stað þess að setja fram þá sundurlausu þvælu sem birtist lesendum greinar hennar.

Oddný heldur því fram að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi vísvitandi veikt eftirlitsstofnanir ríkisins eins og Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið og Skattinn. Þetta er alrangt og raunar er þessu öfugt farið. Allar þessar eftirlitsstofnanir þenjast út langt umfram rökréttar þarfir á vakt núverandi ríkisstjórnar.

Kynlegast er samt að hinn reyndi þingmaður skuli halda því fram að einkavæðing bankanna hafi leitt til hruns á Íslandi! Er mögulegt að það hafi farið fram hjá þingmanninum að árið 2008 varð alþjóðleg bankakrísa sem leiddi til hruns fjölda banka og fjármálafyrirtækja víða um heim? Ríkissjóðir margra landa stóðu þá í ströngu við að bjarga því sem bjargað varð. Á Íslandi var þetta ekki hægt vegna þess að við þurfum að búa við íslenska krónu – sem er verri en gagnslaus í mótbyr – og Seðlabanki Íslands klúðraði atburðarásinni á ævintýralegan hátt. Einkavæðingu bankanna verður hvorki kennt um alþjóðlegu bankakrísuna né margvíslegt klúður Seðlabanka Íslands.

Ýmislegt má finna aðferðafræði og framkvæmd Íslandsbankaútboðsins til foráttu en tilraun þingmannsins til að tengja sölu ríkisins á fimmtungi hlutabréfa í Íslandsbanka nú við atburðarás hrunsins er fullkomlega glórulaus málflutningur og þingmanninum til skammar.

Oddný hlýtur að vita betur. Ætli hún að láta skrif sín markast af heift gerir hún fátt annað en að skaða flokk sinn, Samfylkinguna.

- Ólafur Arnarson