Stjórnarandstaðan gæti bjargað ríkisstjórninni

Þegar Alþingi kemur saman eftir sumarleyfi blasir við að strax muni verða heitar umræður um fjölda vandræðamála sem standa nú upp á ríkisstjórnina og engin eða mjög takmörkuð samstaða er um. Illdeilur eru milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna en Framsókn lætur lítið á sér bera, horfir bæði til hægri og vinstri, vill halda friðinn enda skiptir fátt annað en völdin þá máli.

Eina sem getur komið í veg fyrir að ríkisstjórnin liðist í sundur á haustmánuðum er stjórnarandstaðan. Ef þingmenn stjórnarandstöðunnar koma til þings og byrja að keppast við að ráðast á ríkisstjórnina vegna ágreinings stjórnarflokkanna og allra vandræðamálanna gæti það þjappað stjórnarflokkunum saman. Fari stjórnarandstaðan rólega af stað munu erfiðu málin engu að síður öll koma upp og þá munu þingmenn stjórnarflokkanna ráðast að hver öðrum og þá má búast við að tíðkuð verði hin breiðari spjótin.

DV hefur fengið staðfest að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var með Svandísi Svavarsdóttur í ráðum þegar hún stöðvaði hvalveiðar fyrirvaralaust daginn áður en skipin áttu að leggja úr höfn. Með því er talið að hún hafi brotið flestar meginreglur stjórnsýslulaga og jafnvel sjálfa stjórnarskrána. DV fékk þetta formlega staðfest og sjálfstæðismenn eru óðir vegna þessa. Íslandsbankamálið hangir eins og myllusteinn um háls fjármálaráðherrans, Lindarhvolsmálið er með ljótari hneykslismálum síðari ára, stórir hópar og byggðarlög hugsa matvælaráðherra þegjandi þörfina vegna þess að ekki var bætt við aflaheimildir vegna strandveiða, virkjanamál eru í seinkun og orkuskiptin í uppnámi, Íslendingar standa ekki við skuldbindingar vegna loftslagsmála, Vinstri grænir eru ósáttir við dómsmálaráðherra vegna vopnavæðingar lögreglunnar og síðast en ekki síst er hver höndin upp á móti annarri í ríkisstjórninni vegna útlendingalaga og málefna hælisleitenda sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur viðurkennt að séu komin í hreint óefni – reyndar á vakt Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið burðarás í ríkisstjórnum síðustu tíu árin samfleytt.

Öll þessi mál krauma og vegna þeirra gæti soðið upp úr hvenær sem er í haust nema stjórnarandstaðan fari fram með svo miklum látum og offorsi þegar þing kemur saman að stjórnarflokkarnir þjappi sér saman og slíðri sverðin. Það gæti gerst.

Meðal stjórnarandstæðinga eru einstaklingar sem oft láta kappið ráða málflutningi sínum. Nefna má áberandi dæmi um það eins og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Ingu Sæland, Björn Leví Gunnarsson, Helgu Völu Helgadóttur, Bergþór Ólason og Sigmar Guðmundsson. Ef þetta fólk og aðrir stjórnarandstæðingar á þingi fara með yfirveguðum hætti inn í þingveturinn er viðbúið að ekkert stöðvi þingmenn stjórnarflokkanna í að ráðast hver að öðrum af mikilli heift ef marka má orðræðuna að undanförnu. Þá hjálpar heldur ekki hvernig allir þrír stjórnarflokkarnir eru að tapa miklu fylgi samkvæmt öllum skoðanakönnunum sem birst hafa allt þetta ár og fara versnandi. Samtals er fylgi þeirra komið niður í 36 prósent samkvæmt könnunum. Þetta veldur titringi og streitu.

Nú í vikunni vöktu skrif Brynjars Níelssonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, mikla athygli. Þar krefst hann þess beinlínis að Sjálfstæðisflokkurinn losni úr klóm Vinstri grænna og telur að stjórnarsamstarfið sé komið á heljarþröm. Hann gagnrýnir forystu flokks síns fyrir undanlátssemi og linkind gagnvart framgöngu Vinstri grænna. Brynjar er mjög vel tengdur innan flokksins og talið er að hann túlki með þessari gagnrýni sinni sjónarmið þorra tryggra sjálfstæðismanna sem horfa upp á þróun mála reiðir og daprir í bragði.

Komandi haust verður spennandi í íslenskum stjórnmálum. Flokkarnir eru við öllu búnir enda er ástandið þannig að soðið getur upp úr fyrirvaralaust.

- Ólafur Arnarson