Steingrímur J. afturgenginn til að ausa út peningum til bænda

Skattgreiðendur þurfa nú að undirbúa sig undir það að stórum styrkjum verði ausið úr ríkissjóði til að koma til móts við bændur landsins enn eina ferðina. Nú vegna þess að ýmsar rekstrarvörur hafa hækkað í verði á alþjóðamörkuðum vegna stríðsrekstrar Rússa í Úkraníu.

Alþekkt er að þegar átök af þessu tagi verða í heiminum leiðir það til tímabundinna verðhækkana á eldsneyti, áburði, timbri, stáli og öðrum rekstrar-og fjárfestingarvörum.

Þegar þetta gerist rekur íslenska bændastéttin einatt upp ramakvein, snýr sér beint til ríkisvaldsins og krefst enn meiri opinberra styrkja fyrir atvinnugrein sína. Skemmst er að minnast þess að daginn áður en fjárlög íslenska ríkisins voru samþykkt á Alþingi, rétt fyrir síðustu jól, kom sendinefnd bænda til fundar við stjórnvöld og krafðist viðbótarstyrkja vegna þess að áburðarverð hafði hækkað eitthvað á heimsmarkaði. Þetta var löngu áður en til stríðsátaka í Úkraníu kom. Þessi pöntun var afgreidd fljótt og vel og bændur engu 700 milljónir króna í viðbótarstyrk vegna umræddrar hækkunar.

Rétt er að vekja athygli á því að aðrar atvinnugreinar í landinu komast almennt ekki upp með að senda reikninga vegna hækkana beint til ríkisins. Vitað er að mikil verðbólga er víða á Vesturlöndum um þessar mundir og vöruverð hefur hækkað, ekki bara eldsneyti.

Engum kemur til hugar að verslunin í landinu geti sent reikninga vegna hækkana beint til ríkisins. Verslunin verður að bregðast við hækkunum aðfanga með því að hagræða í rekstri og eftir atvikum að breyta verði seldra vara. Sama gildir um allan iðnað. Þannig virkar rekstur.

En ekki hjá bændum. Þeir senda reikninga vegna hækkana til ríkisins. Með því eru þeir að gefa til kynna að landbúnaður sé ekki alvöruatvinnugrein heldur miklu frekar lífsstíll. Ef svo er getur það engan veginn verið verkefni skattgreiðenda og standa undir því í gegnum skattheimtu ríkisins.

Nú er vert að vara skattgreiðendur alvarlega við: Svandís Svavarsdóttir landbúnaðarráðherra er greinilega að undirbúa stórsókn gegn skattgreiðendum. Hún málar ástandið afar dökkum litum og hótar þjóðinni meira að segja fæðuskorti verði fjárhirslur ríkisins ekki opnaðar upp á gátt fyrir bændur landsins.

Svo mikið þykir henni liggja við að nú er búið að sækja gamla Steingrím J. Sigfússon norður í Þistilfjörð til að fara fyrir enn einni opinberu nefndinni og nú er það nefnd sem á að segja ríkisstjórninni hve stórum fjárhæðum á að ráðstafa í viðbótarstyrki – ofan á aðra viðbótarstyrki – til bænda landsins.

Þjóðin andaði léttar í trausti þess að Steingrímur J. væri hættur að ráðskast með hagsmuni hennar en hann var fjármálaráðherra í verstu ríkisstjórn lýðveldissögunnar sem sat við völd 2009 til 2013 og skattlagði meira en þekkst hefur. Nú er rykið dustað af honum að nýju og honum falið að kortleggja hvernig skattgreiðendur verða tuskaðir til að þessu sinni. Varla verður Steingrímur J. Sigfússon betri afturgenginn með þessum hætti.

Ljóst er að nú þurfa skattgreiðendur að vera vel á verði.

- Ólafur Arnarson.