Snýst eins og vindhani

“Auðlindasjóður er nokkuð sem ég hlýt að setja fyrirvara við vegna þess að við erum með sjálfbærar auðlindir.”


Hver skyldi hafa sagt þetta? Jú, sjálfur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, þegar hann var í stjórnarandstöðu.


Sami Bjarni Benediktsson og spilaði út hugmynd um auðlindasjóð á afmælisfundi Landsvirkjunar í síðustu viku. Hann hefur snúist um 180 gráður, snýst eins og vindhani á húsmæni.


Hvers vegna vill hann auðlindasjóð núna? Skýringin er augljós. Það þarf að brydda upp á einhverju nýju til að freista þess að dreifa athyglinni frá öllum vandræðamálunum sem flokkur hans og ríkisstjórnin eru að fást við. Að ekki sé talað um fylgishrunið sem stjórnarflokkarnir standa frammi fyrir. Eru með stuðning þriðjungs þjóðarinnar í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Einnig mæla kannanir traust á Bjarna og félögum hans í algeru frostmarki. Þjóðin hvorki treystir þeim né telur þá ná til kjósenda eða vera heiðarlega.


Þess utan eru vandræðamálin áberandi, bæði í þinginu og einnig hvað varðar stjórnsýslu og persónuleg afglöp margra ráðherra. Við þessar aðstæður er brýnt að brydda upp á einhverju öðru sem hægt að að fjalla um og fá fjölmiðla til að blása upp. Þá hefur vaknað hugmynd um auðlindajóð. Einhver PR ráðgjafinn hefur komið með hana.


í sjóð þennan á að renna allur beinn arður af nýtingu orkuauðlinda í eigu ríkisins. Svo bætti ráðherra við: “Til greina kæmi að orkuauðlindasjóður væri gegnumstreymissjóður, nýttur til að greiða niður skuldir ríkisins og styðja við fjármögnun mikilvægra innviða á borð við framkvæmdir Landsspítalans…………”


Með öðrum orður: Sjóður sem yrði enginn sjóður heldur bara gegnumstreymisbatterí fyrir fjármuni sem ríkið er að fá til sín   í dag. Engin ný verðmætasköpun fylgdi þessu, engir nýjir peningar yrðu til fyrir ríkissjóð. Einungis tilfærsla milli vasa hjá ríkinu.


En til yrði nýr sjóður. Nýtt sjóðasukk. Bjarni gæti þá skipað einhverja vini sína í stjórn sjóðsins til að láta þá útdeila fé til “góðra verka”, sem gætu oftar en ekki verið á vegum vildarvina og ættingja. Reynslan sýnir það. Sporin hræða.