Sjálfstæðismönnum svelgist á

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hugsa til þess með hryllingi að þurfa að verja Sigmund Davíð vantrausti eftir páska.

Ef nógu margir þeirra gera það ekki þá er stjórnin fallin og til þess mega þeir ekki hugsa.

Með því að verja Sigmund vantrausti þá tekur Sjálfstæðisflokkurinn meðábyrgð á Tortólasiðferði forsætisráðherra. Það getur ekki verið tilhlökkunarefni og það mun kosta þá fylgi sem svosem ekki er aflögu.

Náttfari hefur heimildir fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn muni tryggja lágmarksfjölda þingmanna til að fella vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar, 8 eða 9 þingmenn.

Þá geta þeir sem alls ekki geta hugsað sér að skrifa upp á Tortóla fengið að sitja hjá. Gert er ráð fyrir að í þeim hópi séu Vilhjálmur Bjarnason, Ásmundur Friðriksson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Elín Hirst, Guðlaugur Þór Þórðarson og Brynjar Níelsson. Fleiri vilja vera í þeirra hópi en verða píndir til að kyngja þessum beiska bita.

Bjarni Benediktsson mun ekki ætla að stíga þessi þungu skref ókeypis.

Hann vill í staðinn fyrir að verja Sigmund vantrausti fá eitt ráðuneyti frá Framsókn. Sigrún Magnúsdóttir mun þá hætta sem umhverfisráðherra og sjálfstæðismaður koma í staðinn inn í ríkisstjórnina.

Sigrún vill hætta og fara á eftirlaun.