Sjálfstæðismenn eru 35 prósent kjósenda en Sjálfstæðisflokkurinn er fastur í 20-25 prósentum

Nýlega hlustaði ég á reyndan stjórnmálamann, sem einnig er vel menntaður á sviði stjórnmálanna, skilgreina með yfirveguðum hætti stöðu Sjálfstæðisflokksins hin síðari ár og nú eftir sveitarstjórnarkosningar sem leiddu til ágætrar niðurstöðu fyrir flokkinn í ýmsum sveitarfélögum – nema í Reykjavík sem er vitanlega mikið áfall.

Flokksins bíður áframhaldandi valdalaus minnihlutastaða og nú í félagi við Sósíalistaflokk Íslands, Vinstri græna og Flokk fólksins í Reykjavík. Væntanlega var þetta ekki það sem vænst var eftir áralangar og samfelldar árásir flokksins og Morgunblaðsins á Dag B. Eggertsson borgarstjóra og meirihlutann.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík reyndist vera 24,5 prósent sem er hið lægsta í Íslandssögunni. Flokkurinn missti 6,3 prósentustig frá kosningunum 2018 og tvo borgarfulltrúa. Hildi Björnsdóttur, hinum nýja oddvita flokksins í Reykjavík, var hafnað.

Eyþór Arnalds náði mun betri árangri en honum var ýtt frá fyrir Hildi. Ef litið er á niðurstöður kosninganna í öðrum af stærri sveitaarfélögum landsins þarf flokkurinn lítið að kvarta:

Í Kópavogi reyndist fylgið vera 33 prósent, 31 prósent í Hafnarfirði, 28 prósent í Reykjanesbæ, 18 prósent á Akureyri, 49 prósent í Garðabæ og 27 prósent í Mosfellsbæ. Vegið meðaltal af þessu er yfir 30 prósent sem menn hefðu að sönnu gjarnan þegið í Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki með í myndun meirihluta í Reykjavík, Reykjanesbæ og Mosfellsbæ. Flokkurinn er hins vegar með í meirihluta í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Akureyri. Þessi sjö stærstu sveitarfélög landsins telja 203 þúsund kjósendur af 248 þúsund kjósendum á kjörskrá á Íslandi í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum, eða 82prósent kjósenda. Segja má að þessi sjö sveitarfélög skipti nær öllu við mat á niðurstöðu kosninganna.

Niðurlæging flokksins felst fyrst og fremst í því að komast ekki í meirihluta í Reykjavík. Fylgið dugði hvergi nærri til þess og aðrir flokkar, sem fengu borgarfulltrúa kjörna, höfðu takmarkaðan eða engan áhuga á samstarfi viðSjálfstæðisflokkinn. Það er áfall og það hlýtur að vera flokksmönnum mikið umhugsunar- og áhyggjuefni.

Vert er að hafa í huga að kjósendur í Reykjavík eru meira en 40 prósent allra kjósenda á landinu. Reykjavík er höfuðból þjóðarinnar. Sjálft krúnudjásnið, höfuðborgin, miðstöð stjórnsýslu, menningar, lista og viðskipta. Borgin skiptir höfuðmáli og meginmáli skiptir í pólitíkinni að taka þátt í að stjórna borginni. Nöldurhlutverk í minnihluta þar vegur hreint ekki þungt.

Hinn reyndi stjórnmálamaður, sem áður var vísað í, talaði um að meira en þriðjungur sjálfstæðismanna skilaði sér ekki í Sjálfstæðisflokkinn. Hann sagði mikið hafa breyst hvað þetta varðar frá því að Geir Haarde formaður og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður leiddu flokkinn til 36,6 prósenta sigurs árið 2007, en þá bætti flokkurinn við sig þremur þingmönnum. Síðan hafa orðið forystuskipti og nýir flokkar komið fram á sviðið.

Hann sagði:

Núna styðja 24 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokkinn, fjöldi sjálfstæðismanna er í Viðreisn, margir sjálfstæðismenn fylgdu Miðflokknum að málum en sá flokkur er að hverfa og víst er að í seinni tíð leita margir sjálfstæðismenn skjóls í Framsókn. Sjálfstæðismenn eru ennþá á milli 35 og 40 prósent kjósenda – en þeir vilja ekki allir ljá Sjálfstæðisflokknum atkvæði sín eins og áður. Þriðjungur sjálfstæðismanna styður nú ekki flokkinn.

Þetta eru vitanlega merkilegar vangaveltur og alls ekki hægt að líta þannig á að þær séu út í hött. Lítum á mögulegar skýringar:

  • Forysta flokksins er veik og líkist engan veginn forystunni fyrir 20 eða 30 eða 40 árum. Þetta blasir við.
  • Engir eru í sjónmáli sem eru líklegir til að geta rifið fylgi flokksins upp og náð til sín þeim mikla fjölda sjálfstæðismanna sem velja nú að beina stuðningi sínum annað en til Sjálfstæðisflokksins.
  • Gamaldags viðhorf einkenna flokkinn og þjónkun við sérhagsmuni hinna ríku í sjávarútvegi og landbúnaði fælir kjósendur frá flokknum.
  • Útlendingahræðsla og útlendingahatur, sem meðal annars birtist í andstöðu við Evrópusambandið, undirstrikar stöðnun í flokknum og hrekur kjósendur frá.
  • Klofningur í forystuliði flokksins, einkum í Reykjavík, veikir flokkinn og gerir hann illa stjórntækan. Sérstakega á þetta við í höfuðborginni.
  • Vond ára er yfir flokknum vegna meintra spillingarmála sem jafnan eru dregin fram og tekst einhverra hluta vegna ekki að hrekja.
  • Daðrið við Vinstri græna hefur skaðað flokkinn. Mörgum þykir það niðurlægjandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að lúta leiðsögn og forsæti formanns sósíalista í ríkisstjórn.
  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið farsæll varðandi nýliðun forystufólks á ýmsum stöðum. Nýjasta og eitt besta dæmið um það er val á lista í borgarstjórnarkosningunum að þessu sinni.

Myndun miðjustjórnar í borgarstjórn Reykjavíkur nú gæti markað upphaf mikilla breytinga í íslenskum stjórnmálum. Hafa verður í huga að Samfylkingin, Framsókn, Viðreisn og Píratar eru allt miðjuflokkar. Með því aðVinstri græn hverfi úr fráfarandi meirihluta og Framsókn komi í staðinn er meirihlutinn miðjuhópur en ekki lengur miðju- og vinstri meirihluti. Þetta er mikilvæg breyting sem gefur nýjum meirihluta skýra og öfluga ásýnd.

Í Gallup-skoðanakönnun sem RÚV birti nú fyrir helgina kemur fram að flokkarnir sem eru að mynda miðjumeirihlutann í Reykjavík fengju 37 þingmenn kjörna miðað við könnunina. Gangi samstarf miðjuflokkanna fjögurra vel í Reykjavíkurborg á næstu mánuðum og misserum má gera ráð fyrir því að þessir flokkar gætu orðið áhugasamir um samstarf við ríkisstjórnarmyndun eftir næstu kosningar sem verða í síðasta lagi eftir þrjú ár.

Trúlega verða kosningar talsvert fyrr miðað við þann þunga anda sem virðist nú ríkja innan stjórnarinnar vegna margvíslegra ágreiningsmála sem sum hver hafa ratað upp á yfirborðið.

Kominn er tími til að hvíla þjóðina á Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Nú kann að styttast í straumhvörf í íslenskum stjórnmálum!

- Ólafur Arnarson.