Siðferðisviðmið þriðja heimsins – Bjarni sáttur

Skýrslan langþráða um sölu hlutafjár í Íslandsbanka dregur upp svarta mynd eins og búist var við. Málið hefur velkst hjá Ríkisendurskoðun frá því í júní á þessu ári og loks birtist yfirlit yfir margháttað klúður og handvömm sem ekki er hægt að una við. Öll spjót standa á Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á sukkinu og sleifarlaginu öllu. Samfélagið stendur á öndinni. Er þó ekki nærri allt komið fram.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vinnur að annarri skýrslu sem mun væntanlega staðfesta ófagleg vinnubrögð sumra þeirra fjármálafyrirtækja sem höfðu með sölu hlutabréfa í bankanum að gera. Starfsmenn þeirra fyrirtækja, sem reyndust vera innherjar og því vanhæfir, fengu að taka þátt í útboðinu eins og ekkert væri. Skýrsla bankaeftirlitsins mun væntanlega staðfesta það og sitthvað fleira. Bankaeftirlitið ætlar að treina sér verkið fram í janúar á næsta ári. Óneitanlega bendir það til þess að málið sé stórt í sniðum og mjög alvarlegt.

Eins og við mátti búast hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, tekið til varna og svarar allri gagnrýni með kunnuglegum valdsmannslegum hroka. Hann er ánægður með framvinduna og snýr út úr öllum ávirðingum á æfðan hátt. Ekkert haggar Bjarna. Hann virðist raunverulega trúa því að það sleifarlag sem viðhaft var við framkvæmd sölunnar sé bara í fínasta lagi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Bjarni Benediktsson er gagnrýndur fyrir siðlaus og óboðleg vinnubrögð, en það hefur ekkert að segja. Bjarni vorkennir þeim sem bera fram málefnalega gagnrýni á hendur honum. Slík framkoma einkennir hrokafulla valdamenn, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Bjarni virðist ósnertanlegur og hafinn yfir alla gagnrýni. Það hefur sýnt sig áður.

Með birtingu skýrslunnar má öllum vera ljóst hvers vegna lögð var ofuráhersla á að draga útkomu hennar fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins sem fram fór fyrir rúmri viku. Umræða um efni skýrslunnar hefði vitaskuld skemmt partýstemninguna á fundinum en engan veginn er víst að hún hefði leitt til þess að Bjarni hefði fallið í formannskosningunni. Sjálfstæðisflokkurinn er svo meðvirkur að landsfundarfulltrúar láta smámuni eins og hneyksli af þessu tagi, á kostnað skattgreiðenda, ekki á sig fá.

Bankaklúðrið mun engin áhrif hafa. Bjarni mun eyða nokkrum dögum í að svara með yfirlæti og útúrsnúningum. Svo verður málið tekið af dagskrá. Notast verður við siðferðisviðmið þriðja heimsins við greiningu á þessu máli. Svo heldur lífið bara áfram og allt gengur sinn vanagang.

Tindátum verður rutt úr vegi til þess að tryggja að einhverjum verði refsað fyrir klúður. Forstjóri bankasýslunnar verður rekinn og ef til vill einhverjir lágt settir embættismenn í fjármálaráðuneytinu.

Með því þvær Bjarni Benediktsson hendur sínar og heldur áfram að stýra meðvirkum Sjálfstæðisflokki sem unir áfram glaður og meðvirkur við ósnertanlegan formanninn.

- Ólafur Arnarson.