Anna Tara Andrésdóttir, doktorsnemi í heila-, hugarstarfsemi og hegðun skrifar um virkni gríma í baráttunni gegn COVID-19, á vef Kjarnans í dag. Í færslu sem hún deilir í opna hópnum Fjölmiðlanördar á Facebook segir hún að aðrir miðlar hafi ekki viljað birta greinina.
Í greininni segir hún að sóttvarnayfirvöld hafi ekki fylgt rannsóknum sem bendi til þess að andlitsgrímur virki ekki.
„Notkun andlitsgríma gegn COVID-19 meðal einkennalauss fólks í samfélaginu hefur verið umdeild. Möguleg útskýring á því er að niðurstöður rannsókna og umfjöllun fjölmiðla hefur verið misvísandi,“ segir Anna Tara í greininni og fjallar um að sumar rannsóknir sem vísað er til rannsaki margt meira en bara andlitsgrímur.
„Engin þessara rannsókna skoðaði þó grímunotkun eina og sér. Ásamt grímum notaði fólk aðrar sóttvarnir svo sem hanska, handþvott, fjarlægðartakmarkanir og svo framvegis,“ segir Anna Tara sem gagnrýnir einnig að rannsóknirnar hafi verið framkvæmdar á spítölum en ekki meðal almennings.
Skyldi virkni andlitsgríma gegn öðrum öndunarveirum hafi verið rannsökuð? Já, á heimasíðu CDC (Centers for Disease Control and Prevention) má finna 14 slembiraðaðar íhlutunarrannsóknir, engin þeirra sýndi fram á virkni andlitsgríma gegn inflúensuveirunni.
Erfitt er að gera rannsóknir sem meta hvort andlitsgrímur verndi aðra. Hins vegar fann yfirlitsgrein 44 rannsókna að notkun gríma meðal skurðlækna jók sárasýkingartíðni eftir aðgerð sem dregur í efa hvort grímur verndi aðra,“ segir Anna Tara í grein sinni.
Þá segir Anna Tara mikilvægt að huga að stærð og segir að veiran sé þúsund sinnum minni en götin sem eru á skurð- og taugrímum (COVID-19 veiran: 50 nm to 140 nm; skurð- og taugrímur: 55.000 – 440.000 nm).
„Bent hefur verið á að N95 grímur séu áhrifaríkari gegn COVID-19 hins vegar sía N95 grímur agnir sem eru yfir 300 nm í þvermál sem er tvöfalt stærri en COVID-19 veiran. Auk þess fann ein yfirlitsgrein og ný stór rannsókn ekki virkni N95 gríma gegn öndunarfærasýkingum. Andlitsgrímur eru því hugsaðar til að draga úr dropum sem koma úr öndunarvegi og sumir telja að það dragi einnig úr COVID-19 smitum. Hins vegar virðist sú ályktun vera röng því niðurstöður slembiraðaðra íhlutunarrannsókna benda til þess að minnkun dropa dragi ekki úr COVID-19 smitum.“
Anna Tara fer svo yfir misvísandi skilaboð yfirvalda í bæði Noregi og Bandaríkjunum.
„Ef sóttvarnayfirvöld byggja reglugerðir ekki á rannsóknum, á hverju byggja þær þá? Til að svipta fólk frelsi þarf sérstaklega sterkar röksemdir - röksemdir sem yfirvöld leggja ekki fram. Það getur verið þunn lína milli þess að vernda þegna sína og að valda þeim skaða. Hvernig tryggjum við að yfirvöld fari ekki yfir þá línu?“ spyr hún að lokum.
Greinina er hægt að lesa hér í heild sinni.