Sami maðurinn

Björn Ingi sat ríkisstjórnarfundinn í síðustu viku um losun haftanna. Hann var þar við enda borðsins, kumpánlega montinn og hlustaði gaumgæfilega á tillögur Bjarna sem talaði allan tímann af nokkru þrekleysi, gott ef ekki af óttaþrungnu stami, á meðan maðurinn við endann punktaði hjá sér allt heila innvolsið úr tillögunum. Alltaf fannst þeim fjármálaráðherranum sem hann væri með einhver óþægindi í hnakkanum á meðan hann malaði um skattpíningu þrotabúanna eins og væri hann Steingrímur endurkominn í tillögulíki Indriða - og var sumsé einatt þetta að skima eftir óboðnum gesti á fundinum, en sá hann auðvitað aldrei, enda Björn Ingi og Sigmundur Davíð sami maðurinn – og því ekki á færi venjulegra sjálfstæðismanna að sjá muninn, ef nokkur er. En hann verður auðvitað að fara að kaupa sér áskrift, Garðbæingurinn, altso af síðdegisblaðinu því þar er náttúrlega meira haft eftir honum beint og milliliðalaust en nokkurntíma í gamla, guggna og gráhærða Mogganum sem enn er gerður út.