Samfylkingin styrkir enn stöðu sína samkvæmt nýjustu könnun

Ekki er nokkur leið að halda því lengur fram að fylgisaukning Samfylkingarinnar í allan vetur sé tilviljun. Flokkurinn hefur mælst stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í öllum skoðanakönnunum Gallups það sem af er þessu ári. Þjóðarpúlsinn var birtur nú í byrjun þessa mánaðar og samkvæmt honum fengi Samfylking 25,1 prósent atkvæða og 16 þingmenn en Sjálfstæðisflokkur 22,3 prósent og 14 þingmenn sem þýddi að hann missti þrjá þingmenn frá núverandi stöðu.

Á sama tíma er Samfylkingin að bæta við sig tíu þingmönnum frá kosningunum haustið 2021 þegar flokkurinn naut stuðnings 10 prósenta kjósenda sem skilaði þeim einungis 6 þingmönnum. Ef marka má skoðanakönnun Gallups hefur fylgisaukningin numið heilum 150 prósentum.

Nýjum formanni er þakkaður þessi árangur en einnig hjálpa vaxandi óvinsældir ríkisstjórnarinnar flokknum. Kristrún Frostadóttir formaður hefði öll spil á hendi ef þetta yrðu úrslit þingkosninga.

Allir þrír ríkisstjórnarflokkarnir tapa miklu fylgi. Vinstri græn missa 4 af 8 þingmönnum frá síðustu kosningum. Flokkur forsætisráðherra er rúinn fylgi og trausti.

Framsókn var sigurvegari síðustu kosninga en missir nú 6 af 13 þingmönnum sínum. Segja má að þessir 10 þingmenn fari beint yfir á Samfylkinguna sem kippir miðju- og vinstra fylgi til sín. Sjálfstæðisflokkurinn tapar 3 þingmönnum miðað við könnun Gallups.

Alls tapar ríkisstjórnin 13 af 38 þingmönnum sínum og er kolfallin.

Ef úrslit kosninga yrðu á þennan veg gæti Kristrún Frostadóttir myndað ríkisstjórn og hefði um nokkra kosti að velja –hreina vinstri stjórn, miðjustjórn eins og í borginni og jafnvel enn fleiri kosti.

Kosið verður til Alþingis í síðasta lagi 2025. Haldi ríkisstjórnin áfram að missa fylgi í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri gæti það hæglega gerst að þolinmæðina þryti hjá einhverjum flokkanna. Þá kæmi til breytinga.

Eins gott að vera við öllu búinn í því ófremdarástandi sem nú ríkir.

- Ólafur Arnarson.