Samfylkingin rýfur 30 prósenta múrinn – myndar Kristrún miðjustjórn?

Enn eykur Samfylkingin forskot sitt ef marka má nýjustu Gallup könnunina. Flokkurinn mælist með 30,1 prósent atkvæða í mjög stórri könnun sem stóð yfir allan septembermánuð. Sjálfstæðisflokkurinn berst við að halda sér fyrir ofan 20 prósentin en aðrir flokkar eru svipaðir í fylgi og verið hefur.

Mestu tíðindin fyrir utan þetta eru þau að flokkur forsætisráðherrans er enn að minnka og kominn niður í 5,7 prósenta fylgi. Gæti hæglega dottið út af Alþingi með þessu áframhaldi. VG hefur áður staðið frammi fyrir slíku en þá voru aðstæður með öðrum hætti. Þá vék Steingrímur Sigfússon úr formannssæti, enda óvinsæll með afbrigðum, og hleypti ungum varaformanni að, Katrínu Jakobsdóttur, sem hafði beðið í góðu skjóli sem ráðherra menntamála í óvinsælli vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún gegndi ráðherrastöðunni og lét lítið fyrir sér fara á meðan Steingrímur tók höggin á sig. Flokkur þeirra rétti sig aðeins við með þessu og hélt sér áfram á Alþingi undir formennsku Katrínar.

Nú er engu slíku til að dreifa. Varaformaður VG dregur ekki mikið fylgi að flokknum. Katrín gerði það að því takmarkaða marki sem skoðanakannanir sýna nú. Fram undan er áhugaverður tími sem mun leiða í ljós hvort Vinstri græn ná vopnum sínum eða falla jafnvel af þingi. Eins verður fróðlegt að fylgjast með því hvort Sósíalistaflokkur Íslands hverfur einnig eða tekur sæti Vinstri grænna lengst til vinstri í stjórnmálum hér á landi og þar með á Alþingi.

Haldist þessi mikla fylgisaukning Samfylkingarinnar fram yfir næstu kosningar, hvort sem þær verða árið 2025 eða fyrr, verður stóra spurningin hvort formaður flokksins freistar þess að mynda miðjustjórn með Viðreisn og Framsóknarflokknum – eða öðrum – eða snýr sér að því að bjóða Sjálfstæðisflokknum til samstarfs. Margir óttast að það gæti orðið raunin. Þá yrðu öll stóru orðin lögð til hliðar og hugsað fyrst og fremst um völdin og flokkshagsmuni. Það yrðu talin svik af hendi Samfylkingarinnar miðað við allt sem sagt hefur verið.

Sjálfstæðisflokkurinn er löngu hættur að láta hugsjónir og grundvallarstefnu trufla sig. Enginn minnist þess að hann hafi boðað fyrir kosningarnar 2017 að hann ætlaði að leiða formann Vinstri grænna til öndvegis í ríkisstjórn og gera Katrínu Jakobsdóttur að forsætisráðherra vinstri stjórnar. En það gerði Sjálfstæðisflokkurinn og rétti formanni sósíalista forsætisráðherratign í fyrsta skipti í Íslandssögunni.

Flokkinn munar þá varla um að styðja formann jafnaðarmanna til öndvegis í ríkisstjórn enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn aðeins eina hugsjón: Völd fyrir sig í þágu bakhjarla sinna.

- Ólafur Arnarson