Ríkisstjórn rúin trausti

Ný skoðanakönnun mælir fylgi við ríkisstjórnina einungis 32,7%. Hætt er við að stuðningur væri enn minni ef spurt væri eftir atburði dagsins þegar upplýst er að forsætisráðherrahjónin eru eftir allt saman hrægammar sem geyma eigur sínar á Tortóla.

Þá sýndi Bjarni Benediktsson sitt rétta andlit þegar hann sigaði Lárusi Blöndal formanni Bankasýslu á Landsbankann eftir að bankinn ákvað að lögsækja föðurbróður hans til að rifta Borgunarviðskiptunum.

Fólki finnst við vera komin til Sikileyjar. Mafíusvipur á formönnum ríkisstjórnarflokkanna sem verja spillingu sinna nánustu. Fólki er brugðið.

Fylgið mun enn minka við þessi ósköp.

Skipting þingsæta samkvæmt nýjustu könnun er þannig að Píratar fengju 25 þingmenn, Sjálfstæðisflokkur 16, Framsókn 9 og hefðu þá tapað 10 þingsætum frá síðustu kosningum. Samtals fengju vinstri flokkarnir 13 þingmenn.

Óeining er æpandi í stjórnarliðinu. Framkoma Sigmundar í Landsspítalamálinu er hneyksli. Sjálfstæðismenn eru trylltir út af þessu eins og vegna stjórnsýslu Eyglóar sem virðist ekki lifa í raunheimum.

Framsóknarmenn eru aftur á móti mjög þreyttir á öllum axarsköftum Ragnheiðar Elínar sem getur ekkert gert rétt og þá þykir þeim óboðlegt að Illugi Gunnarsson fái enn að hanga inni sem ráðherra eftir allt fjármálasukkið.

En hvorugur flokkurinn þorir að slíta stjórnarsamstarfinu því þeir eru báðir rúnir trausti og yrðu kjöldregnir ef kosið yrði nú.