Ráðherraábyrgð hvað? Er nóg að Svandís víki?

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi á Íslandi er kolsvört og verður ekki lögð til hliðar án þess að ráðherrar axli ábyrgð. Niðurstaða skýrslunnar er fullkominn áfellisdómur yfir þeim sem hafa farið með framkvæmdavaldið í þessum málaflokki, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Ljóst er að regluverkið varðandi sjókvíaeldi er í skötulíki og ráðuneyti sjávarútvegsmála hefur brugðist um að hafa forystu um að innleiða viðunandi vinnubrögð. Velta má fyrir sér hvort um hreint sleifarleg er að ræða eða hvort vísvitandi var dregið að innleiða fyrirmæli og reglur til að hagsmunaaðilar gætu komið sér betur fyrir í greininni. Þeirri spurningu þarf að svara!

Stjórnmálamenn og aðrir lesendur þessarar skýrslu eru slegnir út af því sem blasir þar við. Hitt er annað mál, að ekki kemur þetta á óvart. Þeir sem fylgst hafa með þessum málum koma hreint ekki af fjöllum. Ráðherrar sjávarútvegsmála hin síðari ár hljóta að hafa vitað nákvæmlega hver staðan hefur verið. Alls ekki þurfti að bíða eftir þessari skýrslu til að taka í taumana hefði vilji verið fyrir hendi.

Stjórnmálamaðurinn, sem ber mestu ábyrgðina á öllum þeim mistökum sem gerð hafa verið, heitir Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Austur kjördæmi. Ekki þarf hins vegar að krefjast þess að hann segi af sér því að hann hætti sjálfviljugur í stjórnmálum haustið 2021. Við embætti hans í sjávarútvegsráðuneytinu tók Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Þótt nafninu hafi þá verið breytt í matvælaráðuneyti breyttist eðli þessa ráðuneytis lítið. Málefni fiskeldis hafa áfram samastað í því ráðuneyti sem Svandís hefur nú borið ábyrgð á í tæpa 15 mánuði.

Hún hefur ekkert gert til að stemma stigu við ósómanum sem viðgengst í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. Hún kallaði eftir rannsókn Ríkisendurskoðunar en það breytir ekki því að málefni eldisins hafa meira og minna legið ljós fyrir í ráðuneytinu, án þess að Svandís hafi aðhafst nokkuð. Vanræksla Svandísar er augljós og ámælisverð. Hún hefur stýrt ráðuneytinu þriðjung yfirstandandi kjörtímabils og ekki í taumana. Eðlileg krafa er að hún víki vegna augljósrar og alvarlegrar vanrækslu.

Til viðbótar því að rannsókn fari fram á embættisfærslu Svandísar og Kristjáns Þórs Júlíussonar, þó svo hann hafi látið af þingmennsku og pólitískum afskiptum, er mjög brýnt að ljósi verði beint að því hvernig annar fyrrverandi þingmaður og ráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson, vann að hagsmunagæslu fyrir fiskeldisfyrirtækin eftir að hann lét af þingmennsku árið 2016. Hann var sjávarútvegsráðherra og svo forseti Alþingis. Strax eftir að hann hætti á þingi réð hann sig í stöðu framkvæmdastjóra Samtaka fiskeldisfyrirtækja og beitti sér af vægast sagt mikilli hörku og nánast ófyrirleitni til að keyra í gegn opinberar ákvarðanir sem nú eru gagnrýndar harðlega í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Vonandi leiðir útkoma þessarar skýrslu og umræða um hana til þess að sjókvíaeldi við Ísland verði bannað áður en meiri skaði hlýst af. Náttúruverndarsamtök hafa gert þá skýlausu kröfu, sem vonandi verður hlustað á. Vert er að halda til haga að fiskeldi á landi er framtíðin og veldur ekki mengun og skaða líkt og sjókvíaeldið.

- Ólafur Arnarson.