Ráðherra sem á kvittun

Eftir 5 mánaða flótta undan fjölmiðlum vegna fjármálahneykslis fór Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra loks í drottningarviðtal við Fréttablaðið sem kom út í dag. Hann sagði við fjölmiðla í gær að þar ætlaði hann að svara þeim spurningum sem hann hefur neitað að svara mánuðum saman.

Skemmst er frá því að segja að Illugi svarar litlu og mest með útúrsnúningum og hálfkveðnum vísum. Þannig birtast engin svör við lykilspurningu um hverjar hafi verið greiðslur til hans frá Orka Energy frá því hann settist á þing árið 2007. Hann reynir að snúa út úr með því að vísa í tekjublöð sem birta upplýsingar um þúsundir Íslendinga á hverju sumri þegar skattskrár koma út!  Hann á enn eftir að svara varðandi þetta: Hverjar voru greiðslur til hans á ári frá 2007 til 2015? Voru þær inntar af hendi á Íslandi eða erlendis? Voru greiddir skattar af þessum tekjum og þá í hvaða landi? Stundin hefur upplýst að Illugi hafi nýlega fengið “lán” hjá Orka Energy að fjárhæð kr. 3.000.000. Því neitar hann ekki í viðtalinu og víkur sér undan því að fjalla um málið. Hvaða lánafyrirgreiðslu hefur hann fengið hjá Orka Energy til viðbótar við launagreiðslur?

Úr því sem komið er hlýtur að verða að upplýsa um greiðslur frá þessu fyrirtæki til Illuga á þingmanns-og ráðherratíma hans með því að Ríkisendurskoðun verði falið að gera rannsókn á málinu og birta opinbera skýrslu um laun og aðrar greiðslur til hans. Illugi kemst ekki upp með það að vísa á tekjublöð fjölmiðla. Það er of ódýr útúrsnúningur manns sem er kjörinn til setu á Alþingi til að þjóna kjósendur og setja okkur lög. Ríkisendurskoðun gæti þá í leiðinni farið ofan í fasteignaviðskiptin við Hauk Harðarson og staðfest hvort húsaleiga hafi verið greidd eða bara ákveðin til málamynda. Ríkisendurskoðun hlýtur að koma að málinu hið fyrsta.

Á Alþingi í gær svaraði ráðherrann því til að hann ætti kvittun vegna veiðileyfa í Vatnsdalsá árið 2014. Hvers vegna var hann ekki búinn að greina frá þessu miklu fyrr? Tók svona langan tíma að finna umrædda kvittun – eða að útbúa hana? Í viðtalinu við FB í dag er umrædd kvittun ekki sýnd og ekki skýrt frá innihaldi hennar.

Illugi heldur því fram í viðtalinu að umtöluð ferð til Kína í þágu Orka Energy hafi verið fullkomlega eðlileg og fulltrúar fyrirtækisins hafi “verið staddir” í Kína.  Hann bendir á að aðrir ráðherrar hafi farið fyrir sendinefndum í heimsóknum af þessu tagi. Það er reyndar alþekkt en þá er staðið að málum með allt öðrum hætti en gert var sl. vor. Þá er venjan sú að Íslandsstofa er fengin til að kynna útflutningsfyrirtækjum fyrirhugaða heimsókn ráðherra eða forseta og fyrirtækjum boðið að taka þátt í ferðinni.  Það var ekki gert í þessu tilviki. Allir sjá að ferðin var sett upp í þágu Orka Energy og hópurinn svo skreyttum með rektorum og fulltrúum frá einu öðru fyrirtæki sem er með útibú í Kína. Forvígismenn Orka Energy voru ekkert óvart “staddir” í Kína þegar ráðherra var þar á ferð með rektorum.  Að reyna að bjóða upp á bull af þessu tagi segir allt um þá örvinglan sem einkennir ráðherra og nánasta lið hans.

Illugi Gunnarsson er búinn að koma sér í sömu stöðu og Hanna Birna kom sér í vegna lekamálsins sem á endanum felldi hana. Hann segir ósatt, hann forðast fjölmiðla, hann heldur að unnt sé að þegja málið í hel. Velur svo að fara í fjölmiðla þegar vígstaðan er töpuð. Alveg eins og hún gerði. Illugi er kominn með HÖNNU-BIRNU-HEILKENNIÐ (HBH) sem varð henni pólitískt að falli. Það styttist í að Illugi fari sömu leið og Hanna Birna, þ.e. út úr ríkisstjórninni.

Drottningarviðtalið við FB í dag er greinilega hugsað af Illuga og ráðgjöfum hans til að afvegaleiða og reyna að afla samúðar. Ráðherrann telur sig ekkert hafa gert nema það sem eðlilegt er og almennt og hann hafi orðið fyrir barðinu á vondum fjölmiðlum sem ofsæki hann af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.

Hverjir skyldu vera ráðgjafar ráðherra sem er kominn með fyrrnefnt heilkenni? Skyldi það vera Guðfinna og þá verður reikningurinn til ráuneytisins hár eins og þegar ákveðið var að kenna þjóðinni að lesa. 

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst eftir 2 vikur. Fróðlegt verður að sjá hvort Illugi kemst gegnum þann fund með jafn ódýrum svörum og hann gaf FB í morgun. Landsfundur er reyndar ein skrýtnasta samkoma landsins. Ætli fundurinn lýsi ekki yfir fullu trausti á Illuga og útnefni hann fórnarlamb ársins 2015.