Ráðherra leggur til umhverfisslys en mætir hörðu

Hinn nýi dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, er með vanhugsaðar tillögur vegna aðkomu fólks að nýju gosstöðvunum á Reykjanesi. Hún reynir greinilega að geðjast þeim sem vilja ryðjast á vettvang þrátt fyrir viðvaranir lögreglu, björgunarsveitafólks og náttúruverndarsinna.

Dómsmálaráðherrann, sem ætti frekar að standa með löggæslufólkinu, vill stækka bílastæði við Vigdísarvelli, láta ryðja veg að gosstöðvunum og beina straumi fólks þangað gegn vilja lögreglu. 

Þessi afstaða er óskiljanleg og hlýtur að skrifast á reynsluleysi og fljótfærni nýja ráðherrans sem langar að láta til sín taka.

Tómas Guðbjartsson, læknir og einlægur umhverfisverndarmaður, hefur snuprað Guðrúnu vegna þessara hugmynda og telur að tillögur hennar hefðu meiriháttar umhverfisslys í för með sér. Tómas bendir á að gróður á þessum slóðum sé afar viðkvæmur og til þeirrar staðreyndar þurfi að taka tillit. Tómas nýtur mikillar virðingar sem náttúruvinur og útivistarmaður. Þess vegna bítur þessi gagnrýni hans fast.

Víst er að forveri Guðrúnar í embætti dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, hefði ekki látið bjánaskap af þessu tagi stjórna sínum gjörðum.

- Ólafur Arnarson