Sif Huld Albertsdóttir fyrrverandi bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks (BsVest) hefur fengið samþykktan starfslokasamning sinn hjá BsVest. Frá því er greint í tilkynningu á vef stofnunarinnar en þar kemur einnig fram að starfslokin séu gerð í fullri sátt við stjórn og er Sif Huld þakkað fyrir vel unnin störf fyrir byggðasamlagið sem og að málefnum fatlaðs fólks á Vestfjörðum.
Málið á sér nokkurn aðdraganda en í ágúst á síðasta ári komst Sif Huld að samkomulagi við Ísafjarðarbæ, sem rekur BsVest, vegna eineltis sem hún hefur orðið fyrir hjá stofnuninni. Sif lagði fram bótakröfu á hendur Ísafjarðarbæ 14. júní í fyrra vegna langvarandi og ótvíræðs eineltis í sinn garð og baðst formlega lausnar frá störfum sínum sem bæjarfulltrúi 24. júní sama ár en hún hafði setið í bæjarstjórn í þrjú ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Í samtali við Fréttablaðið í kvöld segir Sif Huld að hún sé að nokkru leyti fegin að málinu sé lokið en að eftir að hún náði sáttum við bæinn hafi aðstæður ekki breyst og því hafi hún ekki séð aðra lausn en að hætta.
„Þessi hegðun hætti ekki þrátt fyrir falleg loforð um annað,“ segir hún og að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. Hún hafi brunnið fyrir málefninu en að staðan hafi verið orðin mjög slæm fyrir hana persónulega. Hún segir starfslokasamninginn trúnaðarmál en að samningurinn hafi tekið gildi 1. desember.
„Þetta er búið að vera langt ferli og ég var svo mikið að vona að þolandinn þyrfi ekki að hætta en það voru allir sem sögðu við mig að það væri þannig. En ég hugsaði bara að það væri 2022 og að þetta hlyti að vera breytt. En svo reynist það bara ekki rétt. Ég myndi ekki bjóða öllum upp á það að reyna þetta því þetta er ekki auðveld leið.“