Össur fer í forsetann

Össur Skarphéðinsson fer í forsetaframboð og mun væntanlega ná kjöri.
Ólafur Ragnar Grímsson er á bak við plottið samkvæmt heimildum Náttfara. Þeir tveir eru gamlir vinir og bandamenn allt frá því þeir ritstýrðu Þjóðviljanum sáluga á árunum kringum 1980. 
 
Ólafur Ragnar ætlar að hætta - ef hann er viss um að geta ráðið eftirmanninum. Engum treystir hann betur en fóstra sínum Össuri til verksins.
Plott þeirra er þaulhugsað. Ræða Ólafs við þingsetninguna var einn liður í því. Hann vildi rugla þing og þjóð sem mest í rýminu til að vinna tíma. Það tókst honum svona ljómandi vel. Haustið verður notað til frekari undirbúnings.
 
Kristjáni Guy Burgess er ætlað stórt hlutverk í skipulaginu en hann er nýráðinn til Samfylkingarinnar að undirlagi Össurar. Kristján var aðstoðarmaður Össurar í ráðherratíð hans og nánasti ráðgjafi.
 
Ekki hefur farið framhjá mönnum hve orðvar og kurteis Össur hefur verið í allri framkomu og orðræðu upp á síðkastið. Það er liður í að fækka óvinum og vinna sér aukna virðingu meðal kjósenda. Hér er á ferð sama herbragð og Ólafur Ragnar notaði árið 1996 með frábærum árangri.
 
Enginn stenst Össuri og forsetanum snúning í þessu snjalla plotti. Aðrir geta gleymt draumum sínum um lyklavöld á Bessastöðum eftir kosningarnar 2016, þar á meðal Kári Stefánsson, Katrín Jakobsdóttir og Ragna Árnadóttir.
Össur tekur við.