Ólíkt ríkinu veltir borgin við öllum steinum til sparnaðar

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur birt 92 tillögur til sparnaðar í rekstri borgarinnar. Þetta er virðingarvert enda gerir margt smátt eitt stórt. Minnihluti Sósíalista og Sjálfstæðisflokks reyna að gera lítið úr þessari viðleitni. Ríkissjónvarpið slær því upp að Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Gunnars Smára, telji að verið sé að ráðast á leikskólabörn sem er rangt. Það er dæmigert fyrir minnihluta og auðvitað ríkismiðilinn sem er ávallt tilbúinn til að skemma fyrir. Hér er á ferðinni ómerkilegur málflutningur minnihluta sem hefur ekkert gagnlegt fram að færa í baráttunni. Þá er látið duga að grípa til sleggjudóma.

Reykjavíkurborg er með halla upp á nokkra milljarða króna á yfirstandandi ári. Einnig stefnir í halla á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun. Meirihlutinn í borgarstjórn sýnir þó þá viðleitni að leggja til mikinn fjölda sparnaðartillagna til að sporna við þessum nokkurra milljarða halla. Það er hlutverk þeirra sem fara með völd og getur ekki annað en talist virðingarvert.

Sjálfstæðismenn í minnihlutanum gera lítið úr þessu. Þá mætti spyrja þeirrar spurningar hvernig sjálfstæðismenn í ríkisstjórn standa sig í fjármálastjórninni en formaður flokksins er fjármálaráðherra í núverandi vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og hefur verið það síðustu fimm árin. Árið 2022 stefnir í 200 milljarða halla á ríkissjóði og enginn gerir neitt til að reyna að sporna við þeim halla.

Fjármálaráðherra hefur lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023 sem sýnir halla upp á nærri 100 milljarða. Síðan hafa komið fram tillögur um viðbótarútgjöld upp á fimmtíu milljarða og lítið farið fyrir tillögum um tekjuaukningu á móti. Ífjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að seld verði hlutabréf ríkisins í Íslandsbanka fyrir 75 milljarða. Útilokað er talið að úr því geti orðið vegna þess að stjórnvöld hafa glatað öllu trausti vegna sölu ríkiseigna og því verði salan að bíða. Hallinn á ríkissjóði árið 2023 gæti orðið svipaður og árið 2022 eða um 200 milljarðar króna, auk þess sem lánsfjárþörf ríkisins á næsta ári virðist stórlega vanmetin.

Velta sjálfstæðismenn í ríkisstjórn við einhverjum steinum til að sporna við þessum hrikalega halla á ríkissjóði? Nei, aldeilis ekki. Þeir leyfa áframhaldandi útþenslu ríkisbáknsins sem aldrei fyrr, taumlausa fjölgun ríkisstarfsmanna, stofnun nýrra ríkisstofnana, óþarfa eyðslu í montbyggingar fyrir ríkisstofnanir eins og dæmin sanna. Hver var þörfin á að reisa fimm hæða hús utan um kontóra starfsmanna Alþingis og þingmanna? Hver var þörfin á að kaupa dýrasta skrifstofuhús landsins fyrir utanríkisráðuneytið, hver var þörfin á að ráðast í endurbyggingu Skúlagötu 4 sem búið er að gera nær fokhelt að innan vegna endurbóta upp á milljarða. Óráðsían er taumlaus á öllum sviðum í rekstri ríkisins á vakt Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur og stjórnum annarra sveitarfélaga hafa enga stöðu til að gagnrýna viðleitni til sparnaðar eins og þó kemur fram í borginni. Hjá ríkinu eru engir tilburðir til aðhalds eða sparnaðar – einungis hertur brotavilji í taumlausri eyðslu sem leiðir til hörmulegs hallarekstrar sem er ekki upp á nokkra milljarða á ári heldur mörg hundruð milljarða ár eftir ár.

Með þessu áframhaldi stefnir í algert óefni hjá ríkinu. En þá verður væntanlega komin ný ríkisstjórn sem þarf að moka flórinn eftir óráðsíu vinstri stjórnarinnar.

- Ólafur Arnarson.