Ólafía næsti forseti así?

Undirritun kjarasamninga SA og VR, LÍV, Eflingar og Starfsgreinasambandsins sl. föstudag er sögulegur viðburður. Aðstæður til að gera stóran samning núna voru vægast sagt erfiðar. En með þrautsegju tókst ábyrgu öflunum á vinnumarkaði að koma samningum í höfn þannig að allir geta vel við unað. Samningurinn mun skila umtalsverðum kjarabótum, lyfta lágmarkslaunum í 300.000 kr. sem hefur verið hávær krafa að undanförnu og það sem mestu varðar fyrir atvinnulífið er að samningurinn er langur, nær til ársloka 2018. Þá tókst aðilum vinnumarkaðarins að berja ríkisstjórnina til hlýðni og fá fram nokkrar tilhliðranir af hálfu stjórnvalda.

 

Þessi niðurstaða er mikill sigur fyrir Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra SA, og ekki síður fyrir Ólafíu Rafnsdóttur, formann VR, og Sigurð Bessason, formann Eflingar, en þau leiddu samningaviðræðurnar af hálfu launþega. Forseti ASÍ virðist ekki hafa komið mikið við sögu þessara samninga og var ekki sýnilegur í fjölmiðlum við undirritun á föstudag. Þar beindist kastljósið einungis að Ólafíu, Sigurði og Birni Snæbjörnssyni og svo forystu SA. Ekki þarf að efa að Gylfi Arnbjörnsson hefur miðlað af langri reynslu sinni að tjaldabaki en ljóst er að hann réði ekki för.

 

Staða forseta ASÍ er nú í besta falli einkennileg, ef ekki beinlínis mjög veik. Augu fólks beinast nú að Ólafíu Rafnsdóttur, sem stóðst þessa raun með mikilli prýði. Stjarna hennar innan launþegahreyfingarinnar skín nú skært. Menn eru þegar farnir að sjá hana fyrir sér sem næsta forseta ASÍ enda ekki við öðru að búast en því að tími Gylfa á forsetastóli sé liðinn.

 

Hjá SA liggur meginábyrgð stórra kjarasamninga hjá framkvæmdastjóra, aðstoðarframkvæmdastjóra og framkvæmdastjórn SA. Auk Þorsteins Víglundssonar gegnir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri, lykilhlutverki. Framkvæmdastjórnin er skipuð mjög öflugum forystumönnum úr atvinnulífinu: Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair er formaður, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, er varaformaður og aðrir í framkvæmdastjórn eru Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins og formaður Samtaka ferðaþjónustu, Höskuldur Ólafsson bankastjóri og formaður Samtaka fjármálafyrirtækja, Margrét Sanders formaður SVÞ, Sigsteinn Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels, Kolbeinn Árnason og Jens Garðar formaður Samtaka í sjávarútvegi. Stórskotalið þar á ferð.