Ólæs hvetur til læsis

Grátbroslegt er að fylgjast með nýjustu upphlaupum Illuga Gunnarssonar sem öll ganga út á að beina athyglinni frá misgjörðum hans.

Ljóst er að hann hefur lagt í mikið PR-prógramm sem unnið hefur verið úti í bæ til að reyna að vinna laskaða ímynd hans til baka. Menntamálaráðuneytið borgar auðvitað brúsann. Bæði varðandi ímyndardæmi Illuga og einnig þegar hann spilar út ríkispeningum í auglýsingamál af þessu tagi.

Mikilvægt er að einhver þingmaður óski eftir upplýsingum um hvað áróðursherferð Illuga hefur kostað skattgreiðendur. Hver var fenginn til að búa til prógramm um “Læsi”? Var það KOM, þar sem vinir Illuga eiga hluti. Magnús Rangarsson og Friðjón Friðjónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar? Spurt er.

 

Alla vega var verkið unnið á auglýsingastofu því ljóst er að enginn ráðuneytismaður hefði látið sér detta önnur eins steypa í hug.

Á forsíðu Fréttablaðsins fyir nokkurm dögum stóð: ILLUGI SEGIR FÁTT UM SVÖR.

Við fyrstu sýn mátti ætla að loks hefði hann svarað varðandi misgjörðir sínar í málum ORKA ENERGY þar sem hann var ráðgjafi á launum sem hann sagði ekki frá samkvæmt reglum Alþingis.

Fjölmiðlar hafa ítrekað spurt Illuga um tengsl hans við þetta fyrirtæki og allt það sem það og eigendur þess hafa gert persónulega fyrir Illuga.

Ólæsi Illuga á þessar spurningar er merkilegt þegar hann nú beitir sér fyrir læsi landsmanna.

Væri ekki ráð að hann prófaði fyrst að lesa allar þær spurningar sem hann hefur fengið út af þessum óþægilegu málum áður en hann reynir á læsi landsmanna.

Illugi er ólæs á eigin vammir. Hann getur ekki beint athygilinni frá sér með almennu bulli um “ólæsi” á grundvelli opinberrar áætlunar sem búin var til á auglýsingastofu.

Hvenær mun hinn ólæsi lesa?