Öfugmæli og innantómir frasar einkenna daufa kosningabaráttu

Enn er býsna dauft yfir kosningabaráttunni nú þegar einungis ellefu dagar eru til sveitarstjórnarkosninga. Kjósendur virðast hafa takmarkaðan áhuga á kosningunum víðast hvar á landinu. Reykjavík er auðvitað í sérflokki og svo er talsverð spenna í Hafnarfirði þar sem talsverðar líkur eru á að Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrum bæjarstjóri, komist til valda að nýju og velti Sjálfstæðisflokknum úr sessi í þessum gamla kratabæ.

Yrðu það markverð tíðindi því að Guðmundur Árni hefur sinnt öðrum mikilvægum verkefnum síðustu áratugina eftir farsælan feril sem bæjarstjóri í Hafnarfirði. Eftir það varð hann þingmaður, ráðherra og sendiherra þar til hann snéri heim í Hafnarfjörðinn þar sem kjósendur virðast taka honum vel.

Ljóst er að í Kópavogi verða hið minnsta miklar mannabreytingar enda margir núverandi bæjarfulltrúar sem gefa ekki kost á sér að þessu sinni. Erfitt er að spá fyrir um hreyfingar á fylgi milli flokka en þó gætu persónulegar vinsældir ráðið miklu og tengsl við íþróttafélagið Breiðablik sem skipar mikilvægan sess í bæjarfélaginu.

Hermt er að Orri Hlöðversson, sem skipar nú efsta sæti Framsóknar í bænum, vilji ekkert minna en bæjarstjórastólinn sem þyrfti þá að taka af Sjálfstæðisflokknum. Slík ráðstöfun er ekki auðveld en hugsanlega framkvæmanleg vegna mikilla vinsælda sem Orri hefur náð vegna starfa sinna fyrir Breiðablik.

Í Reykjavík ríkir örvænting og krísuástand í Sjálfstæðisflokknum. Hildur Björnsdóttir sem leiðir listann virðist ekki ætla að ná neinu flugi með fylgið. Eftir að Fréttablaðið birti tvær stórar og vandaðar skoðanakannanir í síðustu viku, bæði varðandi landsmálin og einnig vegna borgarstjórnarkosninganna, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mældist í báðum tilvikum neðan við tuttugu prósent mörkin, kallaði hún saman neyðarfund í Valhöll. Á þeim fundi mun ekki hafa verið mælanleg stemmning. Hildur kenndi forystu flokksins um ástandið vegna klúðursmála innan ríkisstjórnarinnar, ekki síst vegna bankasölunnar.

Ýmsir fundarmanna vildu ekki taka undir það og bentu á að fylgið í Reykjavík hafi farið niður undir tuttugu prósentin strax eftir að listi flokksins var kynntur undir forystu hennar. Margir eru strax farnir að sakna Eyþórs Arnalds, sem fengið hefur mikla gagnrýni innan sem utan Sjálfstæðisflokksins, en undir forystu hans náði fylgið þó þrjátíu prósentum sem eru víðs fjarri nú.

Vitað er að flokkurinn er þverklofinn í Reykjavík í fylkingar Guðlaugs Þórs annars vegar og Áslaugar Örnu hins vegar. Ekki verður séð að þessir hópar geti unnið vel saman. Sjálfstæðisflokkurinn er einfaldlega ekki stjórntækur í Reykjavík vegna klofnings.

Sú eintóna gagnrýni sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Morgunblaðið hafa staðið fyrir síðustu fjögur árin hefur beðið skipbrot. Miðflokkurinn hefur nær þurrkast út, kjósendur hrista hausinn yfir staglkenndu einelti Morgunblaðsins og málflutningur Sjálfstæðisflokksins fær ekki hljómgrunn.

Tal um slæma stöðu fjármála í borginni hefur verið hrakið með staðreyndum. Hvergi á höfuðborgarsvæðinu er fjárhagsstaðan betri en í Reykjavík á alla mælikvarða. Upplýsingar um þetta hafa verið birtar og þar kemur fram að hlutfallslega er fjárhagsstaða sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verst í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi en flokkurinn stjórnar í báðum þessum sveitarfélögum, enn sem komið er.

Borgin stendur sig lang best allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í útvegun lóða til íbúðabygginga. Dæmi eru um það að í sveitarfélagi sem sjálfstæðismenn stýra hafi ekki verið bætt við einni einustu íbúð á öllu yfirstandandi kjörtímabili. Full ástæða er til að halda þessu til haga í umræðunni.

Þá kemur það úr hörðustu átt þegar sjálfstæðismenn gera nú mygluvanda í skólabyggingum Reykjavíkur að meintu kosningamáli og kenna núverandi meirihluta um. Mygla er því miður útbreiddur vandi í íslenskum byggingum. En þegar litið er á þær skólabyggingar í Reykjavík, þar sem mygla hefur fundist og þar sem verið er að vinna að viðgerðum á myglu, kemur í ljós þær skólabyggingar hafa allar verið reistar í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Lengi býr að fyrstu gerð.

Sem dæmi um þetta mætti nefna Hagaskóla þar sem unnið er að víðtækum viðgerðum vegna myglu. Hagaskóli var reistur á árunum eftir 1960 þegar Geir Hallgrímsson var borgarstjóri. Fossvogsskóli, sem einnig er mikið myglubæli, var byggður í valdatíð Davíðs Oddssonar. Vilja sjálfstæðismenn ekki líta sér nær ef þeir ætla að hætta sér út í umræður um mygluvanda í borginni?

Loks má nefna að Framsóknarflokkurinn stendur tvímælalaust fyrir öfugmælum þessarar kosningabaráttu. Leiðtogi þeirra í Reykjavík heldur því stöðugt fram að til þess að koma fram breytingum í Reykjavík þurfi að kjósa Framsókn.

Ýmsum þykja innihaldslausir frasar af þessu tagi ekki svaraverðir. Engu að síður er full ástæða til að benda á þá staðreynd að enginn stjórnmálaflokkur er íhaldssamari en Framsókn. Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi stendur fastar gegn breytingum og framförum. Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi er meiri kerfisflokkur en Framsókn. Flokkurinn stendur stöðugan vörð um rándýrt niðurgreiðslukerfi í landbúnaði, kvótakerfi sem hlunnfer þjóðina og síðast en ekki síst: Framsókn ber mesta ábyrgð á því að höfuðborgarbúar hafa einungis hálft atkvæði í Alþingiskosningum saman borið við landsbyggðina.

Kjósendur í Reykjavík ættu að varast að styðja flokk sem vill ekki jafnan kosningarrétt. Kjósendur í Reykjavík hafa ekkert við Framsóknarflokkinn að gera – jafnvel þó að flokkurinn hafi náð sér í eðal íhald, sjálfstæðismann úr Kópavogi, til að leiða lista sinn í þetta sinn.

- Ólafur Arnarson