Öfgahægri frálshyggjublaðra

Loksins þegar allur þingheimur var tilbúinn í að vera sammála um eitthvað, þá þurfti lítill varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins að rjúfa þá samstöðu. Þingið ákvað að stofna sjóð til að taka eina táknræna jákvæða ákvörðun í tilefni af hátíðisdegi kvenna þann 19. júní. En Sigríður Andersen, sem situr nú inni sem varaþingmaður, þurfti að rjúfa samstöðuna og kjósa ein á móti.

 

Má ætla að hugsjónir hafi ráðið og svona sterk grunnsannfæring eða er hugsanlegt að hún hafi ákveðið að nota tækifærið til að reyna að vekja á sér athygli?

 

Dæmi hver fyrir sig. En Náttfari er þeirrar skoðunar að hún hafi í örvæntingu ákveðið að reyna að fá á sig kastljós fjölmiðla því ekki hefur henni tekist að vekja á sér athygli fyrir neina málafylgju í þinginu þó hún hafi setið sem varamaður í allan vetur. Þetta er óttalega billegur poppúlismi sem flestir sjá í gegnum. Því græðir Sigríður Andersen lítið á þessu. Með frjálshyggjuafstöðu sinni gleður hún vafalaust öfgasinnuðustu kjósendur flokksins og þeir munu hugsa hlýtt til hennar í næsta prófkjöri. En það breytir engu því þeir styðja hana hvort sem er. Hún er fulltrúi harðlínuaflanna lengst til hægri í Sjálfstæðisflokknum. Þokkalegur félagsskapur það!

 

Þetta vandræðalega útspil Sigríðar minnir á það þegar Vilhjálmur Áranson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fór allt í einu að berjast fyrir því að leyft yrði að selja brennivín í kjörbúðum og á bensínstöðvum. Það gerði hann þegar honum og stuðningsmönnum hans varð ljóst að hann hafði setið á þingi í heilt ár án þess nokkur hafi tekið eftir honum. Þá varð að finna eitthvað mál sem mætti reyna að nota til að vekja á honum athygli. Hann valdi brennivínið, þó bindindismaður sé, og hefur hvorki komist með það mál lönd né strönd í þinginu.

 

Poppúlismi lítilla kalla og kellinga í þinginu er hallærislegur.