Ný föt – sama röddin

Björgvin Halldórsson er þekktur fyrir mörg hnyttin tilsvör. Oft hefur verið vitnað í orð hans þegar hann hitti Karl Örvarsson, söngvara, sem skartaði nýjum fötum sem vakti athygli Björgvins. Eftir að hafa átt orðastað við Karl vin sinn og virt nýju fötin fyrir sér kvað Björgvin Halldórsson upp úr og sagði: „Ný föt – sama röddin.“ Þetta var tveggja manna tal þeirra en við vitum af þesum fleygu orðum vegna þess að Karl Örvarsson sagði frá samtalinu.

Þetta fræga tilsvar sækir því miður að manni þegar hlýtt er á nýja forystu Samtaka atvinnulífsins eftir að Halldór Benjamín Þorbergsson og Ásdís Kristjánsdóttir hurfu hljóðlega af vettvangi samtakanna og komu sér vel fyrir í stöðum bæjarstjóra í Kópavogi og á forstjórastóli Regins, fasteignafélags.

Það er á margra vitorði að mjög margir forsvarsmenn fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins voru mjög ósáttir við svonefnda lífskjarasamninga sem voru gerðir vorið 2019 en þá voru Halldór Benjamín og Ásdís helstu reiknimeistarar samtakanna og eru talin hafa skilað miður góðu verki. Samið var um talsvert meiri launahækkun en vöxtur og afkoma atvinnulífsins leyfði auk þess sem samið var um styttingu vinnuviku og lengingu orlofs – allt á sama tíma sem verður að teljast algerlega galið.

Hvers vegna var samið með þessum hætti? Svar margra ósáttra aðila innan Samtaka atvinnulífsins er einfalt: Uppgjöf og meðvirkni með ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar. Stjórnin varð að hafa frið á vinnumarkaði og fékk friðinn með uppgjöf samningamanna Samtaka atvinnulífsins en bæði Ásdís og Halldór höfðu verið grunuð um græsku að vilja koma sér á framfæri í stórum hlutverkum innan Sjálfstæðisflokksins. Ásdís er þegar orðin bæjarstjóri flokksins í Kópavogi.

Þegar gerðir eru kjarasamningar sem innistæða reynist ekki fyrir hefur það margvíslegar afleiðingar: Þeir sem komast upp með að hækka verð á vörum sínum eða þjónustu gera það. Aðrir verða fyrir miklu hnjaski en verðlag hækkar alla vega. Kynnt er undir verðbólgu. Það gerðist í kjölfar samninganna árið 2019 sem Halldór og Ásdís reiknuðu út og lögðu fyrir félaga í samtökunum sem voru of svifaseinir að fella þá samninga hreinlega. En smám saman óx gremja þeirra og reiðin beindist að reiknimeisturunum.

Innan Samtaka atvinnulífsins tíðkast ekki að hrekja fólk opinberlega í burtu eins og launþegahreyfingin leyfir sér stundum. Þess vegna skýrðist smám saman að tími Halldórs og Ásdísar væri liðinn. Hann leið og þau komu sér snyrtilega á brott og í öruggt skjól. Bæði eru nú jafnvel nefnd til æðstu forystu í Sjálfstæðisflokknum í þeim mikla forystuvanda sem þar ríkir.

Þá var komið að forystu Samtaka atvinnulífsins að velja nýjan framkvæmdastjóra samtakanna. Fyrir valinu varð Sigríður Margrét Oddsdóttir. Hún er vel menntuð og með mikilvæga reynslu úr atvinnulífinu. Það er vissulega kostur sem verður ekki frá henni tekinn. Talsvert gekk á innan samtakanna áður en niðurstaða náðist um nýjan framkvæmdastjóra sem er jafnframt aðalsamningamaður þessara stóru samtaka en innan þeirra rúmast iðnaður, verslun, þjónusta, ferðaiðnaður, sjávarútvegur og fjármálastarfsemi. Sem sé nær allt atvinnulífið.

Harðlínumenn í Sjálfstæðisflokknum og Framsókn vildu ná þessari stöðu. Reynt var að fá samstöðu um Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækja, þar á meðal fiskeldis. Henni var umsvifalaust hafnað. Hún ferðast nú um landið og segir þjóðinni hvað sjávarútvegur kunni að hafa gert fyrir þjóðina. Svo fer hún vonandi aðra ferð og segir okkur hvað sjávarútvegur hefur gert fyrir þá sem njóta gjafakvótans. Næst reyndu þeir að tefla fram gleymdum fyrrverandi alþingismanni, Sigurði Kára Kristjánssyni. Sú hugmynd var beinlínis hlegin út af borðinu.

Niðurstaðan varð sú að ráða Sigríði Margréti. Ef hlustað er á málflutning hennar sem er bæði skýr og afgerandi, þá saknar maður þess að hún bryddi upp á lausnum sem gætu slegið á verðbólguna og orðið lykillinn að vitrænu samtali við forystu verkalýðshreyfingarinnar. Enn hefur ekki örlað á því.

Sú mæta kona, Sigríður Margrét, ætti nú að kynna sér vel hvernig Þjóðarsáttarsamningunum var komið á.

Þá gáfu allir eftir: Launþegahreyfingin, bændur, stórmarkaðir, ríkið, sveitarfélög, þjónusta, verslun – já, og jafnvel bankar.

Við vonum það besta og trúum því að hjá Samtökum atvinnulífsins verði ekki bara „ný föt – sama röddin.“

– Ólafur Arnarson