Morgunblaðið er ríkisrekið - fékk 9,5 milljarða króna niðurfellda hjá ríkisbanka. Verður framhald?

Morgunblaðið er ríkisrekið eins og RÚV. Þannig eru tveir stærstu fjölmiðlar landsins í raun og veru ríkisreknir þótt með mismunandi hætti sé. RÚV fær marga milljarða á ári hverju af fjárlögum og aukafjárlögum eins og kunnugt er. Hitt er ekki eins opinbert að Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, er ríkisrekið með þeim hætti að útgáfan hefur fengið níu og hálfan milljarð - níuþúsundogfimmhundruð milljónir króna - niðurfelldar af skuldum sínum í ríkisbanka, reiknað til núverandi verðlags.

Árið 2009 felldi ríkisbanki niður 5,6 milljarða króna af skuldum Árvakurs og árið 2011 var bætt um betur og felldur niður 1,9 milljarðar króna af skuldum útgáfunnar. Stóra niðurfellingin var gerð á árinu sem Guðbjörg Matthíasdóttir, auðkona í Vestmannaeyjum, lét ráða Davíð Oddsson í starf ritstjóra blaðsins þegar hann hafði verið hrakinn úr stóli bankastjóra Seðlabanka Íslands eftir að hafa ýtt hruninu af stað að margra mati.

Samtals er hér um að ræða 7,5 milljarða króna á verðlagi þessara ára. Reiknað til núgildandi verðlags er hér um að ræða 9,5 milljarð króna. Níuþúsundogfimmhundruð milljónir króna. Þarna eru ekki á ferðinni neinar smáfjárhæðir sem ríkisbankinn ráðstafaði til að halda lífi í áframhaldandi útgáfu Morgunblaðsins eftir að fjöldi áskrifenda hafði hrunið um tugi þúsunda. Til að setja í samhengi jafngilda 9,5 milljarðar króna andvirði um 150 nýrra lítilla íbúða í fjölbýlishúsi. Þar væri um að ræða myndarlega blokk sem ríkisbanki hefur styrkt Morgunblaðið um.

Nú berast fréttir af því að Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hafi mikinn áhuga á að kaupa útvarpsstöðina Bylgjuna af SÝN. Hún mun vera til sölu fyrir að minnsta kosti einn og hálfan milljarð króna. Árvakur hefur verið að basla með rekstur útvarpsstöðvar K-100 sem fengið hefur takmarkaða hlustun á meðan Bylgjan gengur ljómandi vel.

Þá vaknar spurnin um fjármögnun kaupanna ef til kemur. Mun Árvakur nota sömu aðferð og árin 2009 og 2011 að skuldsetja sig og láta svo ríkisbanka fella skuldina niður? Hvers vegna ekki núna eins og útgáfufélagið hefur komist upp með áður á svona líka myndarlegan hátt?

Ríkisreknu fyrirtækin ganga ávallt fyrir.

- Ólafur Arnarson.