Moggi snýr á haus

Leiðarahöfundur Mogga reynir í mánudagsblaði sínu að gera sem mest úr vanda stjórnarandstöðuflokkanna, allra nema VG. Allir vita hver skrifar leiðara blaðsins þegar þeir eru á við þann sem hér um ræðir. Þegar reynt er að snúa málum á haus og beina athygli frá aðalatriðum með notkun lélegra fimmaurabrandara, þá má öllum vera ljóst að Davíð Oddsson er höfundurinn. Sami Davíð og einu sinni var sniðugur stjórnmálamaður og þar á undan fyndinn og óforskammaður strákur. Nú er hann önugur og svekktur “fyrrverandi hitt og þetta” en fær að ljúka starfsdeginum í skjóli sægreifa og bænda sem eiga Morgunblaðið, já og ríkisstjórnina.

 

Í leiðaranum er vikið að formannskosningum í Samfylkingunni sem reyndust tvísýnar og flokknum trúlega ekki til framdráttar til skemmri tíma litið. En það breytir því  ekki að Árni Páll Árnason var endurkjörinn og hélt velli, jafnvel þó Mogganum og Jóhönnugenginu í Samfylkingunni líki það ekki. Þá er mikið gert úr fréttaflutningi vegna Bjartrar framtíðar en þar stangast menn eitthvað á varðandi stöðu formannsins. Ætla má að flokksfundur geri út um framtíð forystunnar á næstunni og þá geta menn haldið áfram ótrauðir að gagnrýna sitjandi ríkisstjórn fyrir sleifarlag og lélega stjórnsýslu.

 

En það stórkostlegasta í leiðara blaðsins er að höfundi skuli hafa tekist að finna það út að Píratar, sem mánuð eftir mánuð reynast vera langstærsti flokkur landsins skv. skoðanakönnunum með 35% fylgi, séu í vandræðum vegna þess að fylgið sé svo mikið! Það þarf mikla pólitíska spekinga til að komast að svona niðurstöðu. Píratarnir eru í sérflokki það sem af er þessu ári og hafa hrifsað forystuna af stjórnarflokkunum sem mega una við lítið og veiklulegt fylgi. Gamlir flokkshundar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eru í sárum út af þessari staðreynd og hafa ekki mátt mæla fyrr en nú og þá með þessum endemishætti.

 

Ekki var minnst einu orði á forystuvanda stjórnarflokkanna í umræddum leiðara. Skyldi það vera vegna þess að í forystu flokkanna sé allt með felldu? Varla verður því haldið fram með neinum nothæfum rökum.

 

Látum nægja að líta yfir forystu Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni: Bjarni Benediktsson formaður er sá eini af ráðherrunum sem nýtur þokkalegrar virðingar. Metur leiðarahöfundurinn stöðu núverandi varaformanns sterka? Skyldi honum þykja það vera til álitsauka fyrir flokkinn að varaformaðurinn skyldi þurfa að hrökklast frá völdum eftir að hafa sagt þingi og þjóð ósatt í heilt ár? Kalla þurfti utanþingsmanneskju inn í ríkisstjórnina því enginn í þingflokknum þótti hæfur. Er það styrkleikamerki?  Ætli leiðarahöfundi þyki staða Illuga Gunnarssonar sterk eftir allan óþverran kringum Orka Energy? Má ætla að honum þyki vegferð Ragnheiðar Elínar á ráðherrastóli glæsileg, m.a. vegna þeirrar niðurlægingar sem hún hefur mátt þola vegna náttúrupassans sáluga?

 

Þarf Sjálfstæðisflokkurinn nokkru að kvíða vegna komandi landsfundar?  Verða formaður og varaformaður ekki endurkjörin með fögnuðu og þar með staðfest að flokkurinn sé sáttur við að vera fjórðungsflokkur eða fimmtungsflokkur að kjörfylgi í stað þess að vera þriðjungsflokkur áður. Er þetta viðbóturfylgi hvort sem ekki bölvaður óþarfi sem saman stendur af einhverju dóti sem ekkert er við að gera. Betra að vera fáir og “hreinir”, ekki satt?

 

Náttfari nennir ekki að tala um forystu Framsóknar að þessu sinni. Lesendur vita allt um hana. Það er forystan sem hefur misst fylgið niður úr 19 þingmönnum í 8 þingmenn á tveimur árum. Þarf frekar vitnana við?

 

Leiðarahöfundur Mogga sá enga ástæðu til að geta um vandamál í forystu stjórnarflokkanna tveggja þegar hann skrifaði leiðara sinn um vandamál íslenskra stjórnmálaflokka. Það segir allt um fagmennsku þar á bæ. 

 

Hafa ber í huga að sömu aðilar eiga bæði Morgunblaðið og núverandi ríkisstjórn.