Minnihlutinn í borgarstjórn er handónýtur

Samkvæmt merkilegri skoðanakönnun Gallup sem Viðskiptablaðið birti sl. fimmtudag er minnihlutinn í Reykjavíkurborg í tómu tjóni. Borgarstjóri og meirihluti hans lentu í miklum mótbyr í síðasta mánuði vegna misráðinnar ákvörðunar um viðskiptabann á Ísrael. Málið var vanhugsað frá upphafi og baðst Dagur afsökunar á því og dró samþykktina til baka.

Við þetta klúður vaknaði minnihlutinn af værum blundi og hélt að hann hefði fengið upp í hendur tilefni til að styrkja stöðu sína. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins heimtuðu afsögn borgarstjóra og gengu fram með offorsi og jafnvel dónaskap sem er fáheyrður í stjórnmálum. Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi flokksins líkti meirihlutanum við nasista. Svo æst var hún loksins þegar hún fékk málin á þessu kjörtímabili. Fram að þessu hafði vart heyrst orð frá henni á vettvangi borgarinnar en 16 mánuðir eru liðnir af kjörtímabilinu. Sama gildir um hina borgarfulltrúa flokksins. Þeir hafa verið týndir en birtust allir þegar þetta mál kom upp.

Til upprifjunar er rétt að fram komi að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru fjórir: Halldór Halldórsson, Júlíus  Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug. Flestir hafa væntanlega verið búnir að gleyma nöfnum þeirra. Þegar Áslaug fór að tala um nasista, urðu margir hissa því hún er dóttir einhvers farsælasta stjórnmálamanns Íslands á seinni tímum, Friðriks Sophussonar, sem þótti bæði málefnalegur, sáttfús og kurteis í málflutningi sínum. Hann þyrfti að kenna dóttur sinni góða siði í pólistíku starfi þó hún muni aldrei ná þeim sjarma sem einkennir Friðrik.

Þrátt fyrir þann mótbyr sem samþykktin um viðskiptabann á Ísrael hefur valdið, fékk núverandi meirihluti í borginni 71,3% atkvæða samkvæmt þessari Gallup könnun. Meirihlutinn hlaut 61% í kosningunum vorið 2014. Framsóknarflokkurinn hrynur til grunna. Hlýtur 4,4% í stað 10,7% í kosningunum og kemur því engum manni að miðað við áframhaldandi 15 borgarfulltrúa fyrirkomulag.

Niðurstöður Gallup könnunarinnar byggja á stóru úrtaki 1877 kjósenda í Reykjavík. Það er því sannarlega marktækt. Píratar tróna á toppnum eins og á landsvísu. Þeir fá 27,5% atkvæða og 5 borgarfulltrúa – fimmfalda fylgi sitt frá kosningunum í fyrra. Samfylkingin er með 25% og 4 fulltrúa eins og Sjálfstæðisflokkurinn sem er með þriðja mesta fylgið 23%. Vinstri grænir hafa 11% og 1 fulltrúa og Björt framtíð 8% og 1 fulltrúa. Samtals 15. Framsókn er með 4,4% og kemur ekki að manni. Samkvæmt þessu er meirihlutinn í borginni með 11 borgarfulltrúa í stað 9 eftir kosningar.

Talsverðar tilfærslur eru á fylgi innan meirihlutans, einkum frá Bjartri framtíð til Pírata sem reyndar hirða fylgi úr öllum áttum.

Sennilega hefur minnihluti í borgarstjórn Reykjavíkur aldrei verið veikari en nú. Þó var hann stundum ekki upp á marga fiska þegar Sjálfstæðisflokkurinn var og hét í borginni með 8 til 10 borgarfulltrúa af 15. Aldrei áður hefur meirihluti mælst með 11 borgarfulltrúa.

Ekki þarf að koma á óvart að Framsókn þurrkist út með fyrrgreindum hætti. Málflutningur flokksins í Reykjavík er þannig að ekki er við öðru að búast. En árangursleysi Sjálfstæðisflokksins er hins vegar mikið umhugsunar-og rannsóknarefni miðað við áratuga valdahefð í borginni. Ætla hefði mátt að frumhlaup meirihlutans vegna viðskiptabannsins hefði hjálpað og eins eru fjármál borgarinnar afar erfið. Þá hefur Morgunblaðið ofsótt borgarstjóra mánuðum saman en það virðist ekki hafa hin minnstu áhrif.

Þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hreint ekki orðið til að hjálpa með framgöngu sinni. Á það ekki síst við um þá tvo sem leiddu lista flokksins í alþingiskosningunum 2013, Hönnu Birnu og Illuga (Spilluga) Gunnarsson en þau hafa verið sem pólitísk lík í lest flokksins, bæði á landsvísu en þó einkum í Reykjavík