Miðjuflokkarnir fagna því að ekkert breytist hjá Sjálfstæðisflokknum

Sautjánhundruðmanna landsfundur tryggði óbreytt ástandi í Sjálfstæðisflokknum með endurkjöri forystunnar. Formönnum miðjuflokkanna, Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar, er létt því að full ástæða var til að ætla að Guðlaugur Þór hefði getað klórað viðbótarfylgi til Sjálfstæðisflokksins, hefði hann náð kjöri sem formaður. Viðbótarfylgið hefði þá komið frá Framsókn, Viðreisn og Samfylkingunni. Breytingar hefðu getað kostað miðjuflokkana fylgistap og óþægindi. En nú þurfa þeir ekkert að óttast hvað það varðar.

Með endurkjöri Bjarna Benediktssonar mun ekkert breytast. Stefna og ásýnd Sjálfstæðisflokksins er hin sama og verið hefur þau 13 ár sem Bjarni hefur verið formaður. Á þeim tíma hefur fylgi flokksins á landsvísu hrunið úr 37 prósentum í 24 prósent og ekkert bendir til að þeirri óheillaþróun verði snúið við á næstu árum. Flokkurinn hefur misst einn af hverjum þremur kjósenda sinna varanlega, að því er virðist. Guðlaugur Þór er talinn ná til breiðari hóps kjósenda. Hann er alþýðumaður sem hefur barist áfram og náð þangað sem raun ber vitni með vinnusemi og dugnaði. Bjarni Benediktsson tilheyrir yfirstétt þjóðarinnar sem á takmarkaða samleið með breiðum hópi kjósenda.

Meirihluti kjósenda á landsfundinum tryggði óbreytt ástand og virðist sætta sig við minnkaðan flokk frá því sem áður var. Það gerir stjórnmálin á Íslandi meira spennandi á næstu mánuðum, alla vega á nýbyrjuðum vetri. Miðjuflokkarnir eru lausir við þá ógn sem breyttur taktur í Sjálfstæðisflokknum hefði getað valdið. Þeir hafa tækifæri á að auka fylgi sitt og herða á stjórnmálabaráttunni. Samfylkingin er komin með nýjan og harðaskeyttan formann sem nú þarf að láta til sín taka.Kristrún Frostadóttir hefur þegar sýnt svo ekki verður um villst að það er hún sem heldur um stýrið í Samfylkingunni.Vinstri grænir tapa fylgi og trúverðugleika og eru sá stjórnmálaflokkur sem virðist ætla að fara verst út úr þeim erfiðu og vandræðalegu málum sem við er að fást.

Ekki á það síst við um útlendingamálin og meðferð lögreglu á flóttafólki. Þó að sá málaflokkur heyri undir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra eru það Vinstri grænir sem hafa þóst láta sig málefni þessa fólks miklu varða en aðhafast svo ekkert þegar á reynir. Sama er hægt að segja um ýmsa þætti umhverfismála, dýravelferð og fleira sem þessi meinti græni flokkur hefur þóst láta sig varða.

Gagnrýni beinist einkum að Sjálfstæðisflokknum vegna veraldlegra mála eins og klúðri vegna bankasölunnar, vanhugsuðu útspili vegna ÍL-sjóðs sem ríkið ber ábyrgð á en virðist ætla að freista þess að koma höggi upp á mörghundruð milljarða króna yfir á lífeyrissjóði landsmanna, botnlausum fjárlagahalla í hagvexti og stjórnlausri útþenslu ríkisbáknsins svo nokkuð sé nefnt. Þessi gagnrýni beinist einkum að fjármálaráðherranum, Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins. Þá blasir við að vextir rjúka upp, verðbólga er í hæstu hæðum og 350 kjarasamningar eru lausir.

Veturinn framundan getur orðið langur og kaldur hjá vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur.

- Ólafur Arnarson