Í kvöld fer í loftið annar þáttur af fjórum þar sem listafólk úr öllum áttum kemur saman til að skemmta fólki í samkomubanni, sóttkví og einangrun.
Hljómsveitin Tendra, sem samanstendur af parinu Marínu Ósk, söngkonu, og Mikael Mána, gítarleikara mun stíga fyrst á stokk og skemmta Íslendingum með fallegri jazz-tónlist. Samtals voru þau tilnefnd til þriggja verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum en síðastliðið ár hafa þau einnig gefið út samtals fjórar plötur, beint heim, Athvarf, Bobby og jólaplötuna Hjörtu okkar jóla.
Skáldið Þorvaldur Sigurbjörn Helgason mun lesa nokkur vel valin ljóð. Þorvaldur er rithöfundur, dagskrágerðarmaður og sviðshöfundur. Hann hefur gefið út bækurnar Draumar á þvottasnúru og Gangverk.
Stefán Ingvar Vigfússon sviðshöfundur, útvarpsgerðarmaður og grínisti ætlar að kitla hláturtaugarnar. Hann er meðlimur í uppistandshópnum VHS og sviðslistahópnum Ást og karókí sem nýverið frumsýndi sýningu sína Skattsvik Development Group í Borgarleikhúsinu sem var streymt beint á Vísi frá Borgarleikhúsinu vegna samkomubannsins.
Tónlistarkonan Ásta kemur einnig fram en hún vakti verðskuldaða athygli á Íslensku tónlistarverðlaununum þann 11. mars síðastliðinn þar sem hún fór með einlægna þakkarræðu er nýútkomin plata hennar Sykurbað vann plötu ársins í flokki þjóðlagatónlistar.
Hinn ástralskri Jono Duffy mun einnig deila nokkrum sprenghlægilegum sögum um viðveru hans á Íslandi og upplifun hans af íslensku tungumáli. Jono verið virkur í íslenskri grínsenu, bæði með sínar eigin uppsetningar sem og tekið þátt í fjöldamörgum verkefnum, meðal annars sem listrænn stjórnandi í atriði Grétu Salóme í Eurovision, verið reglulegur kynnir á Dragsúg, leikstýrt tónlistarmyndböndum Páls Óskar og Heru Bjarkar og unnið reglulega með Hugleiki Dagssyni víðsvegar í Evrópu.
Þátturinn, sem heitir Saman í sóttkví verður sýndur á Hringbraut klukkan 20:00 í kvöld og verður einnig sýndur í beinni á viðburðarsíðunni hér á Facebook.