Leyndarhyggja gagnast skattsvikurum

Sigríður Andersen byrjar þingmannsferil sinn ekki vel. Hún er nú komin inn á þing eftir fráfall Péturs Blöndal.
 
Það fyrsta sem Sigríði dettur í hug að taka upp sem þingmaður er að tala gegn því að heimilt verði áfram að birta upplýsingar um tekjur fólks samkvæmt skattskrám eins og tíðkast hefur í áratugi. Almennt er viðurkennt að birting þessara upplýsinga veiti aðhald og dragi úr skattsvikum. Þeir sem reyna að sniðganga skattalögin átta sig á því að opinberun upplýsinga um tekjur gerir það að verkum að svindlarar eiga erfiðara með að svíkja tekjur undan skatti.
 
Það er Sjálfstæðisflokknum ekki til framdráttar að innn þingflokks hans finnist fólk sem vill ganga erinda skattsvikara með þeim hætti að halda leyndum upplýsingum um framtaldar tekjur manna. Leyndarhyggja margra stjórnmálamanna er til vandræða og rýmar engan vegin við allt tal um aukið gagnsæi í samfélaginu. Þeir sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu þegar kemur að skattskilum vilja að sjálfsögðu halda sem mestri leynd um skattskil fólks til þess að þeir geti frekar farið sínu fram. 
 
Skattsvik koma öllum landsmönnum við því aðrir þurfa að borga fyrir þá sem láta sitt eftir liggja.
 
Það er ekkert nýtt að ungir sjálfstæðismenn hafi talað gegn birtingu upplýsinga úr skattskrám. Málefnafátækt þeirra gerir það að verkum að þeir tína stundum upp kjánaleg mál eins og þetta til að gera að sínum. Dæmi um það er einnig margra ára tal þeirra um að brýnt sé að selja vín í sjoppum og bjór á bensínstöðvum.
 
Öfgamálgagn ungra og miðaldra sjálfstæðismanna, Vef-þjóðviljinn, hefur um árabil talað fyrir ómerkilegum málum af þessu tagi og ekki hlotið neina upphefð af. Ekki frekar en þegar þeir hvetja til þess að heilbrigðiskerfið verði sett í hendurnar á fólki eins og Ásdísi Höllu í Ármúlasjoppunni og starfsemi RÚV lömuð eða geld. Fáir fylgjast reyndar með skrifum Vef-Þjóðviljans nema helst Staksteinar Morgunblaðsins sem vitna stundum í bullið þegar þá vantar efni í mýkjudreifarann.
 
Sigríði Andersen er vandi á höndum. Hún kemur inn á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Pétur heitinn Blöndal, sem var hinn mætasti þingmaður og er mörgum harmdauði. Hún mun aldrei geta fyllt skarð hans og verður afar langt frá því ef áherslur hennar verða með þeim hætti sem fram hefur komið.
 
Enginn þingmaður bætir neinu við stærð sína með því að ganga erinda skattsvikara eða annarra svindlara.