Lélegasti árangur Sjálfstæðisflokksins í Reyjavík frá upphafi

Sjálfstæðisflokkurinn í Reyljavík hlaut einungis 24,5 prósent greiddra atkvæða í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum sem er lakasti árangur flokksins í allri Íslandssögunni. Flokkurinn hefur aldrei fengið minna fylgi. Hildi Björnsdóttur hlotnast sá vafasami heiður að leiða flokkinn til lökustu niðurstöðu allra tíma í borginni.

Næst lakasti árangurinn er árið 2014 undir forystu Halldórs Halldórssonar en þá hlaut flokkurinn 25,7 prósent greiddra atkvæða. Var það met í lélegum árangri flokksins – þar til Hildur Björnsdóttir sló það nú um helgina.

Þriðji lakasti árangurinn kom í kosningunum árið 2018 undir forystu Eyþórs Arnalds. Þá hlaut flokkurinn 30,8 prósent greiddra atkvæða og átta menn kjörna sem er óneitanlega miklu betri árangur en Hildur og hennar listi fékk nú.

Niðurstaðan úr þessum þrennum kosningum sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur stórveldi í Reykjavík eins og hann var alla síðustu öld. Þá þótti það áfall ef flokkurinn lak rétt niður fyrir 50 prósent í fylgi. Ekki er lengra síðan en árið 1990 að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 60,4 prósent greiddra atkvæða í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Svipaðir yfirburðir náðust einnig á tíma Gunnars Thoroddsen, Geirs Hallgrímssonar og Birgis Ísleifs Gunnarssonar. En það er löngu liðin tíð. Nú er svo komið að leiðtogi flokksins lætur nægja að fagna því að flokkurinn hafi fengið skárri niðurstöðu í kosningunum heldur en í flestum skoðanakönnunum. Það hefur verið nánast regla að Sjálfstæðisflokkurinn fái meira í kosningum en skoðanakannanir hafa sýnt. Gamla fólkið skilar sér betur á kjörstað en hinir yngri.

Slakur árangur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2010 var svo sem ekki langt frá því sem reyndist vera niðurstaðan árið 2018. Undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fékk Sjálfstæðisflokkurinn 33,6 prósent greiddra atkvæða árið 2010. Með því sló Hanna Birna fyrra met Björns Bjarnasonar frá árinu 2002 en flokkurinn fékk einungis 40,2 prósent greiddra atkvæða í Reykjavík þegar Birni var óvænt falið að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum og beið niðurlægjandi ósigur fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Björn var ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og fékk það hlutverk að vinna borgina aftur úr höndum R-listans, sagði af sér ráðherradómi, fór í framboð og tapaði illa fyrir R-listanum.

Eftirtaldir fimm oddvitar lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verma því botninn hvað varðar fylgi flokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi: Neðst er Hildur Björnsdóttir, þá kemur Halldór Halldórsson, svo Eyþór Arnalds, í fjórða sæti er Hanna Birna Kristjánsdóttir og í fimmta sæti yfir lélegan árangur er Björn Bjarnason.

Væntanlega kysi allt þetta fólk að vera minnst fyrir önnur „afrek“ en þessi á vettvangi stjórnmálanna.

- Ólafur Arnarson