Jón Ólafsson landar risaviðskiptum í vatnsrekstri – Hatursmaðurinn fyrstur með fréttina!

Athafnamaðurinn Jón Ólafsson sem hefur byggt upp vatnsfyrirtækið Icelandic Water Holdings í Ölfusi frá árinu 2004 hefur nú gert risasamning við erlenda fjárfesta sem hann fær að fyrirtækinu með mikla fjármuni.

Ætlunin er að reisa „nokkrar“ verksmiðjur á svæðinu og margfalda framleiðsluna á komandi árum. Jón væntir þess að sala aukist um 50 prósent á ári næstu árin.

Gangi það eftir verður fyrirtækið risavaxið og væntanlega mjög arðsamt eftir langa baráttu og tímafrekt uppbyggingarferli.

Hér er um að ræða miklar gleðifréttir enda hefur barátta Jóns og sonar hans tekið mikið á. Nú er viðbúið að þeir uppskeri ríkulega.

Morgunblaðið var fyrst með þessa góðu frétt og lagði meðal annars forsíðu undir hana. Það grátbroslega er að Davíð Oddsson, hinn aldni ritstjóri blaðsins, var yfirlýstur hatursmaður Jóns Ólafssonar á meðan Davíð var og hét sem forsætisráðherra. Hann lagði hvarvetna stein í götu Jóns og lét undirmenn sína meðal annars siga á hann skattalögreglunni að talið er.

Á þeim árum sem Davíð vildi öllu ráða í samfélaginu var Jón Ólafsson í hópi þeirra athafnamanna sem hlýddu Davíð ekki og fóru sínar leiðir. Dæmi um það er svonefndur ORCA-hópur sem Jón var hluti af. Sá hópur eignaðist stóra eignarhluti í bönkum gegn vilja forsætisráðherrans.

Jón Ólafsson stóð af sér róg og tilraunir til að fella hann. Nú stendur hann uppi sem sigurvegari í þessu risastóra vatnsverkefni.

En gamli hatursmaðurinn Davíð er fyrstur með gleðifréttina í blaði sínu. Grátbrosleg örlög.

- Ólafur Arnarson