Jón Gunnarsson: ráðherra í líkkistubransanum

Í liðinni viku var gert veður úr því á Alþingi að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra væri í aukabisness og fengist meðal annars við innflutning á líkkistum. Hann var jafnvel uppnefndur sem útfararstjóri íhaldsins.

Þetta er einungis lítið dæmi um það á hve lágu plani íslensk stjórnmál eru. Kona Jóns rekur innflutningsfyrirtæki og þingheimi kemur nákvæmlega ekkert við hvaða vörur fyrirtæki hennar flytur inn með lögmætum hætti.

Þingmenn vilja eyða tíma þingsins í svona aukaatriði á meðan risastór mál hvíla á þjóðinni og þinginu eins og mara, svo sem eins og óðaverðbólga, hækkandi okurvextir, stjórnlaus fjárlagahalli ríkisins, hneykslismál eins og Lindarhvolssukkið, Íslandsbankaklúðrið, vandræðagangur í umhverfismálum, sjókvíaeldishneykslið og stjórnleysi varðandi innflutning flóttafólks.

Jón Gunnarsson hefur þorað að freista þess að taka á útlendingamálum og vaxandi glæpum í þjóðfélaginu. Þess vegna finnst sumum þingmönnum viðeigandi að ráðast á hann út af hverju sem er, eins og fyrrnefnt dæmi sýnir.

Innan Sjálfstæðisflokksins eru nú vaxandi áhyggjur af mögulegum ráðherraskiptum sem gætu endað með brottför Jóns. Flokksmenn vilja ekki missa hann úr embætti því að hann þorir og sýnir dugnað. Einungis Jón og Guðlaugur Þór Þórðarson sýna djörfung og dug í embættum sínum innan flokksins.

Aðrir virðast vera áhugalausir og linir, eða jafnvel getulausir.

Hermt er að Bjarni Benediktsson telji sig nú vita að Guðrún Hafsteinsdóttir hafi enga burði til að gegna ráðherraembætti. Hún hefur algerlega horfið í þinginu og ekki getað klárað einföld mál þar.

Verði hún gerð að ráðherra – að ekki sé nú talað um dómsmálaráðherra – gæti það orðið hinn vandræðalegasti ferill.

Nú er leitað leiða til að halda Jóni Gunnarssyni inni í ríkisstjórninni.

- Ólafur Arnarson