Jóhannes Kr.: Erfiðast að fjalla um andlát dótturinnar

Rannsóknarblaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson fer yfir feril sinn í blaðamennsku í viðtali við Alþjóðlegt félag rannsóknarblaðamann í liðinni viku. Hann segir að sér hafi þótt eftirminnilegt að vinna að Panama-skjölunum og sé stoltur af þeirri vinnu og að það erfiðasta sem hann hafi gert á ferli sínum var að fjalla um neyslu barna á lyfseðilsskyldum lyfjum í kjölfar þess að dóttir hans lést aðeins 17 ára gömul úr ofneyslu morfíns.

„Persónulegasta og erfiðasta fréttin sem ég hef unnið að er um ári eftir að dóttir mín lést. Hún lést úr ofneyslu hér á Íslandi – morfínneyslu – og hún var aðeins 17 ára gömul. Sem blaðamaður, að vinna fyrir ríkisfjölmiðil þá, vildi ég skoða betur þennan heim ungra fíkla á Íslandi, svo ég gerði það. Ég fór sem blaðamaður með myndavélina, tók upp viðtöl og daglegt líf mjög ungs fólks sem neyttu vímuefna hér á Íslandi, og sagði sögu dóttur minnar í sjónvarpi. Ég sagði alla söguna. Það var mjög persónulegt, og erfiðasta umfjöllun sem ég hef unnið að,“ segir Jóhannes.

Um Panama-skjölin og viðtalið við Sigmund Davíð segir Jóhannes:

„Ísland er lítið land og ef við hefðum byrjað að hringja á skrifstofu forsætisráðherra, ríkisskattstjóra eða hvaða skrifstofu sem er og spurt um fyrirtæki sem heitir Wintris þá hefði fréttin borist út á nokkrum dögum og því gerðum við þetta eins og við gerðum það. Það var kjörið fyrir sjónvarp, en tilgangurinn var að fá hans fyrstu viðbrögð, því sem forsætisráðherra hefði hann átt að greina frá því að þetta væri hans fyrirtæki,“ segir Jóhannes.

Hann lýsir því hvernig er að vinna að svona frétt í litlu samfélaginu og hvernig hann og eiginkonan hans einangruðu sig frá öllum svo að það myndi ekki fréttast út hverju hann væri að vinna að.

Spurður hvort hann finni til ábyrgðar í kjölfar þess að Sigmundur Davíð sagði af sér eftir að þátturinn var sýndur segir Jóhannes að þetta sé það sem blaðamennska snýst um. Hann hafi safnað gögnum og komið þeim áleiðis til almennings sem hafi svo brugðist við eins og þau gerðu.

„Í þessu tilfelli var almenningur reiður yfir þeim upplýsingum sem þeim voru afhent og þau kröfðust þess að hann segði af sér. Það er fegurðin við blaðamennskuna,“ segir Jóhannes.

Viðtalið er hægt að lesa og hlusta á hér.

Fleiri fréttir