Ísland á að vera eitt kjördæmi eins og í forsetakosningum

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur nýlega kynnt þá skoðun sína besta leiðin til að bæta úr því ranglæti sem viðgengst með því að vægi atkvæða í dreifbýli sé víða tvöfalt á við vægi atkvæða í þéttbýli, sé að fjölga kjördæmum! Þetta þykir vægast sagt einkennileg hugmynd. Með því að fjölga kjördæmum úr sex, eins og nú er, í níu eða jafnvel fimmtán eins og Birgir nefnir, þá myndi misvægi atkvæða breytast þannig að stærri flokkar fengju óeðlilegan fjölda þingmanna á kostnað minni flokka. Vitanlega þykir sjálfstæðisþingmanninum Birgi þetta sniðugt í ljósi þess að flokkur hans er annar af tveimur stærstu flokkum landsins um þessar mundir. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking hafa verið að mælast með rúm 20 prósent í öllum skoðanakönnunum að undanförnu og myndu græða þingmenn á kúnstum af þessu tagi.

En hvorki þingmenn né kjósendur eru eins vitlausir og Birgir virðist gera sér vonir um. Þetta mun að sjálfsögðu ekki ná fram að ganga. Hins vegar er krafa um jöfnun atkvæða sífellt að verða háværari og ætla má að senn muni kjósendur í þéttbýli rísa upp og krefjast réttlætis og fullkominnar jöfnunar atkvæða. Atkvæði fólks er heilagur réttur. Að braskað sé með vægi atvkæða eins og tíðkast hefur á Íslandi er engan veginn viðunandi. Með engu móti er boðlegt að hver kjósandi á Akranesi, í Keflavík og á Selfossi sé með tvö atkvæði á móti hverjum kjósanda í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði svo dæmi séu tekin. Umrædd sveitarfélög eru í rauninni sama atvinnusvæðið. Hvernig má það vera að munur á vægi atkvæða innan þessa svæðis geti verið svona mikill – tvöfaldur. Vitanlega er það fullkomlega galið.

Með því að halda uppi ósanngjörnu kerfi af þessu tagi er verið að apa eftir einhverjum þjóðum sem vísað er á þessu til stuðnings. Þá er á það að líta að þar er um að ræða milljóna eða milljónatuga þjóðir sem geta ef til vill réttlætt fyrir sér flókið kosningakerfi af einhverjum sökum. En á Íslandi búa einungis 380.000 íbúar. Við erum bara eins og ein kjördeild hjá sumum stórþjóðanna. Við þurfum ekki að hafa kjördæmaskipan svona flókna. Ísland er einungis eitt kjördæmi. Rétt eins og í forsetakosningum. Þá er Ísland eitt kjördæmi og það hefur gefist mjög vel og kallar ekki á neinar breytingar. Þá hefur hver maður eitt atkvæði eins og er fullkomlega lýðrlæðislegt og sanngjarnt.

Rökin fyrir ójöfnuði hafa hingað til verið þau að það þurfi að jafna gæði milli dreifbýlis og þéttbýlis. Gild rök eru fyrir því. En vitanlega er galið að ætla að jafna þetta með því að taka lýðræðislegan grundvallarrétt, sjálfan kosningarréttinn, af okkur íbúum þéttbýlis og deila honum út í dreifbýlið. Þetta er óboðlegt með öllu. Þetta er mannréttindabrot. Náist samstaða um bætur til dreifbýlisins á kostnað þéttbýlis á að gera það í gegnum ríkissjóð með rökstuddum styrkjum eða skattaívilnunum.

Íslendingar hafa góða reynslu af því að kjósa forseta þegar landið er eitt kjördæmi. Það hefur ávallt tekist vel. Með sama hætti er unnt að kjósa þingmenn til setu á Alþingi. Þá fyrst næst fullkominn jöfnuður atkvæðavægis. Ástæðulaust er að leita flóknari leiða í því dvergríki sem Ísland er.

- Ólafur Arnarson.