Hvaða þórunn?

Framsóknarmenn völdu sér nýjan formann þingflokksins. Fjölmiðlar skýrðu frá því að ÞÓRUNN hefði orðið fyrir valinu.

Þá var spurt: Er einhver Þórunn á þingi? Enginn minntist þess að manneskja með því nafni hefði verið kjörin á þing í seinni tíð. Þórunn Sveinbjörnsdóttir var á þingi fyrir Samfylkingu fyrir nokkrum árum og er löngu hætt. Varla var hún að taka við sem formaður þingflokks Framsóknar.

En Þórunn var kjörin formaður þessa þingflokks, samkvæmt fjölmiðlum. Upp komu tilgátur um að í ljósi þess hve fátt er um frambærilegt fólk í þingflokki Framsóknar, hefði verið ákveðið að fá einhvern utan þess þingflokks til þess að gegna starfi formanns þingflokksins. Menn veltu fyrir sér fólki úr þinghúsinu, þingvörðum, aðstoðarmönnum þingmanna og konunum úr mötuneytinu.

En svo fannst Þórunn Egilsdóttir. Hún hefur verið þingmaður í tæp tvö ár, lítið sagt í þinginu og enginn vissi að hún væri til.

Það geta ekki allir verið þingskörungar eins og Steingrímur J, Ásmundur Friðriksson, Vigdís Hauks og Birgitta.