Hlýhugur og virðing

Þegar stórmenni falla frá, er oft áhugavert að skoða hverng samferðarmenn fjalla um þau í minningargreinum og átta sig á því hverjir skrifa minningargreinar og hverjir láta það ógert af þeim sem hefði mátt ætla að létu frá sér heyra.


Fjöldi minningargreina birtast í dag um Halldór Ásgrímsson. Allar eiga þær það sammerkt að fjallað er um hann af mikilli virðingu og einlægum hlýhug. Gildir einu hvort um er að ræða flokksbræður úr stjórnmálunum eða pólitíska andstæðinga. Fjöldi fyrrverandi ráðherra úr ýmsum flokkum votta honum virðingu sína með fyrrgreindum hætti. Þar á meðal eru Þorsteinn Pálsson, Geir Haarde, Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson, Guðmundur Bjarnason, Jón Kristjánsson, Árni Páll Árnason, Jón Sigurðsson og Ingibjörg Pálmadóttir.


Davíð Oddsson lét ekki sitt eftir liggja og skrifaði einnig hugljúfa minningargrein – að mestu um sjálfan sig – sem einkenndist af hlýhug og virðingu. Það má hann eiga að hann lét Halldórs einnig getið í greininni.


Það vakti ekki síður athygli hverjir birtu ekki minningargreinar. Í Morgunblaðinu í dag er engin minningargrein eftir Guðna Ágústsson. Það undirstrikar hve sárindin voru mikil í Framsóknarflokknum þegar Halldór hætti og vildi ekki styðja Guðna sem eftirmann sinn. Tæpum áratug síðar virðast menn ekki ná að skilja sáttir.


Þá hefði enginn orðið hissa þó Þórólfur Gíslason hefið skrifað kveðju fyrir hönd hins nær horfna kaupfélagaveldis á Íslandi. Kaupfélag Skagfriðinga er nú eiginlega það eina sem minnir á veldi samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi sem setti svo mikinn svip á atvinnulíf og þjóðlíf okkar á síðustu öld. Halldór Ásgrímsson var kaupfélagsstjórasonur og runninn upp í samvinnuhreyfingunni. Var ávalt stuðningsmaður hreyfingarinnar og trúr uppruna sínum. Þórólfur Gíslason er einn valdamesti maður Íslands og tákngerfingur þess sem eftir lifir af samvinnuhreyfingu fyrri tíma. Einkennilegt að hann hafi ekki sent kveðju að skilnaði.