Haukur í horni tapar á illuga

Grátur og gnístran tanna einkennir nú málsvörn Illuga Gunnarssonar eftir að Páll Magnússon svældi hann út úr greni sínu með beittri grein í síðustu viku. Fram að því hafði Illugi reynt að þagga málið niður og neitað því að ræða um það við fjölmiðla. Hann hélt að ennþá kæmust stjórnmálamenn upp með þöggun gagnvart misgjörðum sínum. En nú eru breyttir tímar í fjölmiðlun. Netið er óvægið og hraðvirkt og gefur engin grið.

Illugi birtir grein í Morgunblaðinu í morgun og reynir að gera lítið úr öllu. Merkilegt að hann hafi ekki freistað þess að hreinsa andrúmsloftið miklu fyrr úr því að þetta er allt svona fínt og eðlilegt.

Náttfari ætlar að víkja að tilteknum þáttum þessa máls hér á eftir. Ekki er ástæða til að fjalla um alla þætti þess núna. Illugi er alveg hissa á því að fjölmiðlum þyki eitthvað merkilegt við það að vildarvinurinn Haukur Harðarson hjá Orka Energy, sem Illugi hefur verið að greiða götu fyrir í embætti ráðherra, hafi keypt af honum íbúð á yfirverði og leigi honum hana núna. “Gerir húsaleiga menn háða?”, spyr ráðherra í Morgunblaðsgrein sinni. Lítum á tildrög þessara “viðskipta”.

Ekki er vitað til þess að Haukur Harðarson eða Orka Energy fáist almennt við fasteignaviðskipti, kaup og sölu eða útleigu fasteigna. Hér er á ferðinni afar sértæk aðgerð. Íbúð í 70 ára gömlu húsi við Ránargötu í Reykjavík er seld á yfirverði, kr. 53,5 m. Verðið ákvarðaðist af því sem var áhvílandi á eigninni en ekki af eðlilegu markaðsverði. Málið var einfaldlega leyst með þeirri fjárhæð sem þurfti. Þarf að ætla að Haukur hefði gert þetta fyrir hvern sem er? Nei, þetta var gjörningur til að bjarga ráðherra, valdhafa kjörnum af almenningi, úr fjárhagsklípu. Því er afar vandmeðfarið hvernig samskiptum þessa manns og fyrirtækja hans er háttað við umræddan ráðherra meðan hann er við völd. Um það snýst málið. Ekki hefur verið gætt að vanhæfissjónarmiðum í því efni.

Skyldu þessi íbúðakaup og útleiga vera góður business fyrir Hauk?

Ef við reiknum með því að greiða þurfi 5% raunvexti af 53,5 m.kr. láni, þá eru það 2,7 m.kr. á ári. Fasteignagjöld, vátryggingar o.fl. gætu numið kr. 400 þús. á ári og viðhald á 70 ára gamalli eign getur varla verið lægri fjárhæð en 500 þús. kr á ári. Alls 3.6 m.kr. á ári. Illugi hefur ítrekað látið koma fram að hann greiði í húsaleigu kr. 230.000 á mánuði eða um 2,8 m.kr. á ári. Tap leigusala á ári nemur því um 800 þús. kr. Hann hefur með öðrum orðum ekkert til að greiða upp í fjárfestinguna eða lán vegna kaupanna en þarf þess í stað að greiða um 800 þús. kr. á ári með þessum “viðskiptum”. Ekki getur húseigandinn og leigusalinn huggað sig með því að eignin hækki svo mikið í verði því hún virðist hafa verið keypt á yfirverði.

“Gerir húsaleiga menn háða?”, spurði ráðherra. Já, svona húsaleiguviðskipti gera menn háða.

Í grein sinni gerir Illugi mikið úr því að aðrir ráðherrar hafi áður verið viðstaddir einhverjar undirritanir í tengslum við Orka Energy og því sé þetta allt sambærilegt. En þeir ráðherrar sem um ræðir höfðu ekki notið neinna greiða af hálfu félagsins eða eigenda þess, höfðu ekki verið skornir niður úr neinum fjárhagslegum snörum og leigðu ekki hjá þeim á undirverði. Það er því ekki saman að jafna.

Þegar ráðherrar eða forseti Íslands fara í opinberar heimsóknir eða vinnuferðir til fjarlægra landa þá hefur það verið regla að fyrirtækjum sem eiga í viðskiptum við þau lönd hafa átt þess kost að vera með í för. Íslandsstofa hefur þá annast um að bjóða fyrirtækjum þátttöku og skipulagt heimsóknina. Nú var slíku ekki til að dreifa. Ljóst er að ferð Illuga og föruneytis til Kína var sérsniðin fyrir Orka Energy. Vafalaust hefðu aðrir aðilar í orkugreininni þegið að vera með í för, svo og aðilar í sjávarútvegi, ferðaþjónustu, tölvuiðnði og fleiri greinum. En það stóð ekki til boða. Ferðin var farin til að greiða þakkarskuld við Hauk í horni. Flóknara er það ekki.

Tilraunir Illuga Gunnarssonar til að gera hreint fyrir sínum dyrum eftir 5 mánaða þögn og þöggunartilburði hefur mistekist. Hann reyndi þó og það er sama og Hanna Birna gerði loksins þegar hún sá að ekki yrði undan vikist. Það nægði henni ekki. Hún varð að játa sig sigraða. Eins mun fara fyrir Illuga.

Hvernig mun landsfundur Sjálfstæðisflokksins taka á misgjörðum hans? Verður Illugi rifinn á hol eða mun honum takast að gráta við axlir landsfundargesta og leika hlutverk píslarvottarins til enda? Verður flokkurinn meðvirkur eða krefst hann þess að andrúmsloftið verði hreinsað og leikritinu hætt?