Gervigreindarforritið ChatGBT er til margs nytsamlegt. Það hefur verið til mikillar umræðu undanfarið vegna kosta þess og mögulegra galla, og þá sérstaklega í skólakerfinu, þar sem sumir hafa áhyggjur af því að gervigreindin taki yfir.
En þá hafa líka sumir áhyggjur af því hvort forritið geti greint á milli þess sem er rétt og rangt, og það er ef til vill tilefni til miðað við þær niðurstöður sem Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri fékk í morgun.
„ChatGPT er til margra hluta nytsamlegt. Núna í morgun ljóstraði það til dæmis upp um meiriháttar skandal á Íslandi sem greinilega var algjörlega þaggaður niður árið 1985,“ segir Þóroddur og birtir skjáskot af því sem hann fékk upp þegar hann leitaði að upplýsingum um það sem gerðist á Íslandi árið 1985.
Forritið segir að fundur Gorbatsjov og Reagan hafi átt sér stað hér það ár sem er auðvitað rangt því það var árið 1986. Annað sem forritið gefur sér er að hér hafi átt sér stað skandall árið 1985 sem kallast Vikivaka-Skandallinn og svo eru það eldgos í Grímsvötnum en þau voru heldur ekki árið 1985.
Hér að neðan er hægt að skoða færslu Þórodds en þar er að finna fleiri tillögur forritsins um það sem gerðist hér á Íslandi árið 1985.