Framsókn fríkar út

Innsta forysta Framsóknar er algerlega að fara á taugum. Niðurstöður fyrstu skoðanakannana eftir útspilið varðandi slitabúin valda þvílíkum vonbrigðum. Forysta framsóknar var sannfærð um að fylgið kæmi hratt til baka strax eftir skrautsýninguna þann 8. mai en raunin er aldeilis önnur.

 

Í dag birti MMR skoðanakönnun sem var unnin í þessari viku og lauk þann 24. júní. Niðurstöður verða ekki ferskari. Þar mælist Framsókn með 10% en hafði 11.3% í síðustu könnun sem gerð var fyrir einum mánuði. Flokkurinn er með öðrum orðum enn að tapa fylgi sem er í línu við það sem fram kom í könnun Fréttablaðsins þann 18. júní en þar voru þingmenn flokksins komnir niður í 5 en 14 þingmenn höfðu tapast frá kosningum.

 

Píratar tróna á toppnum með 32.4%. Fleiri flokkar en Framsókn eiga um sárt að binda. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23.3% sem þykir ekki mikið á þeim bæ þar sem menn hafa vanist tölum kringum 35%. Þá er risið heldur ekki hátt á Samfylkingu með 11.6%, VG með 10.5% og Bjartri framtíð með 6.8%.

 

Þessar staðreyndir hjálpa Framsókn ekkert. Flokkurinn fer með forystu í ríkisstjórn en þjóðin treystir flokknum ekki og heldur ekki formanni hans sem er forsætisráðherra. Það getur ekki verið uppörfandi fyrir hann að leiða þjóð sem að 9/10 hlutum vill ekki leiðsögn hans.

 

Vitað er að mikil streyta hefur verið í innsta hring Framsóknarforystunnar síðustu daga vegna þessarar stöðu. Tilraun til að laga ástandið er svo að láta DV taka drottningarviðtal við Sigmund Davíð sem birt er á forsíðu helgarblaðs, sem reyndar kom út degi fyrr en verjulega því mikið liggur á. Blaðið fer svo í aldreifingu, frítt inn á heimili fólks í þéttbýli. Gefin eru 100.000 eintök af blaðinu með hönnuðu viðtali við forsætisráðherra þar sem reynt er að kalla eftir vorkunn lesenda því allir eru svo vondir við hann og flokkinn. Erlendir hrægammar hóta öllu illu, þingmenn haga sér eins og óþokkar, fjölmiðlar skilja Framsókn ekki, bloggher er í stöðugu stríði og ofan á allt þetta ráðast dónalegu systurnar til atlögu og hóta fjárkúgun sem fjölmiðlar hafa gert svo góð skil að unnt verður að sleppa áramótaskaupinu næst. Nægja mun að klippa bullið saman og gera óborganlegan þátt.

 

Í þessu viðtali leggur Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri sig alveg flata og leyfir forsætisráðherra að buna út úr sér innantómum áróðri. Sannkölluð kranablaðamennska. Minnir mest á lýsingar á því þegar flokksblöðin tóku viðtöl við “sína\" ráðherra á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og sendu þeim spurningarnar fyrirfram, spurningar sem enduðu jafnan með hinum fullkomna undirlægjuhætti: Er eitthvað sem ráðherra vill taka fram að lokum?

 

Í stað þess að segja eitthvað mikilvægt í viðtalinu, leggur Sigmundur Davíð til atlögu við Pírata og boðar að þjóðfélagið færi fjandans til ef þeir kæmust til valda. Ber bæði vott um hroka og einnig hræðslu.

 

Atriði úr áramótaskaupinu 2013 kemur manni í hug þegar verið var að gera grín að stjórnarmyndun Sigmundar og Bjarna í sumarbústöðum úti á landi og Sigmundur var látinn spyrja: “Bjarni, eru Píratar nokkuð til?”

 

Forsætisráðherra er nú að vakna upp við vondan draun og hrekkur illa við: Píratar eru svo sannarlega til – og hafa meira en þrefalt fylgi á við Framsókn.