Flaggskip Vinstri grænna brotnar í spón

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur lagt til að frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð verði vísað aftur til ráðherra. Á mannamáli heitir þetta að málið hafi dagað uppi í nefndinni. Ekki þarf þetta að koma á óvart þar sem ekki ríkir einhugur meðal ríkisstjórnarflokkanna um hálendisþjóðgarðinn. Þrátt fyrir að sérstaklega hafi verið vikið að þjóðgarði á miðhálendinu í stjórnarsáttmálanum var frá upphafi ljóst að hér var um óskabarn VG að ræða en ekki Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar.

Eintómur vandræðagangur hefur ríkt um málið allt frá upphafi þrátt fyrir að hátt hafi verið reitt til höggs. Þjóðgarðurinn átti að þekja allt miðhálendi Íslands, eða sem svarar allt að 40 prósentum alls flatarmáls landsins, og af frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð og greinargerð með því er ljóst að ætlunin var að setja á fót nýja ríkisstofnun sem sogar til sín milljarða króna á ári hverju.

Þegar saga hálendisþjóðgarðs á þessu kjörtímabili er skoðuð birtist nokkuð dæmigerð mynd af núverandi stjórnarsamstarfi. Í raun má segja að hinn eiginlegi og óskráði stjórnarsáttmáli feli í sér þegjandi samkomulag um að hver ráðherra fari sínu fram og reki þá stefnu sem honum og hans flokki þóknast. Aðrir flokkar skipti sér ekki af. Á móti kemur að ríkisstjórnin sem slík stendur ekki fyrir mörgum málum og engin trygging er fyrir því að tryggður sé stjórnarmeirihluti á Alþingi um einstök stjórnarfrumvörp. Þetta hefur blasað við varðandi ýmis frumvörp sem ráðherrar hafa fengið leyfi fyrir við ríkisstjórnarborðið. Má þar nefna sem dæmi sum mál menntamálaráðherra, sérstaklega þau sem snúa að fjölmiðlum, stjórnarskrárfrumvarp forsætisráðherra og svo hálendisþjóðgarð umhverfisráðherra.

Raunar hefur klofningurinn milli ríkisstjórnarflokkanna um hálendisþjóðgarðinn verið alger og djúpstæður. Hvorki sjálfstæðismenn né framsóknarmenn hafa verið spenntir fyrir því að leggja 40 prósent alls landssvæðis á Íslandi undir nýja ríkisstofnun. Þá hefur borið á andstöðu meðal íbúa á svæðum sem liggja að fyrirhuguðum þjóðgarði, ekki síst fyrir norðan og austan. Slík andstaða skiptir máli því að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sækja drjúgt fylgi á þessi svæði.

Um tíma var rætt um að starfsmenn í þjóðgarðinum yrðu hátt í 200 sem ekki er fjarri lagi þegar horft er til þess að í Vatnajökulsþjóðgarði, sem er eitt þeirra svæða sem fella átti undir hálendisþjóðgarð, voru 52 ársverk árið 2019. Einnig var rætt um að Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi forseti Alþingis, yrði fyrsti forstjóri nýju ríkisstofnunarinnar.

Eftir að frumvarpið komst loks inn í þingið í nóvember 2020 gekk það fljótlega til þingnefndar og kallað var eftir umsögnum um það. Mikill fjöldi umsagna barst auk þess sem fjölmargir hafa mætt á fund nefndarinnar og gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Greinilegt er að hagsmunaaðilar telja margir hverjir að um stórgallað frumvarp sé að ræða og að við gerð þess hafi takmarkað tillit verið tekið til sjónarmiða heimamanna víða um land.

Nú hefur þetta flaggskip VG á þessu kjörtímabili siglt í strand. Óvíst er hver áhrif það mun hafa til lengri tíma en ljóst er að meðal núverandi og fyrrverandi þingmanna VG ríkir nokkur tilfinningahiti eins og hvöss orðaskipti forsætisráðherra og Rósu Bjargar Brynjólfsdóttur á Alþingi í þessari viku bera með sér.

Kunnugir segja að skipið sé ekki aðeins strandað heldur hafi það brotnað í spón. Engar líkur séu á því að sjálfstæðismenn og Framsókn muni nokkurn tíma taka í mál að koma hálendisþjóðgarði í gegnum þingið.

- Ólafur Arnarson