Feigðarflan höskuldar

Framsóknarmenn eru alveg að losna á límingunum vegna hræðilegrar útreiðar í skoðanakönnunum. Mælast með 8-9% og 5 þingmenn. Því er reynt að brydda upp á einhverju - bara einhverju - til að freista þess að sprengja upp kyrrstöðuna.


Það nýjasta er upphlaup Höskuldar Þórhallssonar sem snýst um að ná skipulagsvaldinu frá Reykjavíkurborg varðandi flugvöllinn. Höskuldi var att á þetta forað og málatilbúnaður hans er enn að auka á niðurlægingu Framsóknar og hans sjálfs sérstaklega.


Þegar hann reif málið út úr umhverfis-og skipulagsnefnd þingsins sl. mánudag varð upplausn í þinginu enn á ný. Vinnubrögð af þessu tagi eru sjaldséð og menn spyrja sig hvort ríkisstjórnarflokkarnir séu endanlega að missa tökin. Eru þeir hreinlega farnir á taugum?


Bent er á að gjörningur af þessu tagi væri brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og myndi baka ríkissjóði skaðabótaskyldu upp á tugi milljarða króna.


Sjálfstæðismenn í þinginu styðja þessa endaleysu ekki. Innanríkisráðherra lýsti því yfir og meira að segja Heimdallur er á móti. Telst til tíðinda að sá klúbbur nái að senda eitthvað frá sér af viti. Málið er því sjálfdautt í höndum Framsóknar og varla til þess fallið að auka stemninguna á ríkisstjórnarheimilinu þar sem menn gráta við öxl hvers annars út af fylgishruni og brostnum vonum.