Fæðist mús?

 


Frétt dagsins í dag er ekki að það eigi loks að taka skref til afnáms gjaldeyrishafta heldur hitt að staðreyndum málsins hafi verið lekið í DV áður en fjármálaráðherra tókst að kynna málið formlega á ríkisstjórnarfundi. Sú framvinda er stórfrétt. Flott hjá DV að “skúbba” með þessum hætti en alls ekki flott hjá framsóknarmönnum að hafa leyft sér að leka þessum ofurviðkvæmu upplýsingum til málgagnsins sem í þessari viku var fullyrt að sé í þeirra eigu.


Náttfari hefur heimildir fyrir því að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins séu menn brjálaðir út af þessu. Málinu hefur verið haldið svo leyndu að þingmenn flokksins hafa ekki einu sinni fengið að fylgjast með því og vissu sumir hverjir nánast ekkert um innihald þess fyrr en þeir lásu DV í morgun. Bjarni Benediktsson, formaður, hlýtur að vera afar ósáttur við þessa framvindu. Hann hefur þurft að sætta sig við margt varðandi einkennilega framkomu Framsóknar, einkum formannsins. Bjarni er ekki skaplaus maður þó kurteis sé. Einn góðan veðurdag sýður upp úr með þessu áframhaldi.


En hver er kjarni máls varðandi þau skref sem nú á að taka? Með lagasetningu á að setja þunga pressu á slitabú bankanna og knýja þau til nauðasamninga en að öðrum kosti verður lagður á 40% refsiskattur. Hermt er að ætlunin sé að gefa þeim einungis 4-5 vikur til að ljúka nauðasamningum. Náttfari hefur einnig heimildir fyrir því að búið sé að ná samningum við slitabúin um að þau ljúki málum með nauðasamningum á tilsettum tíma.


Niðurstaðan á að skila Íslendingum 500 milljörðum króna sem munu með einum eða öðrum hætti létta skuldabirði ríkissjóðs sem er allt of mikil sem stendur. Hvernig aðgerðirnar verða útfærðar nákvæmlega kemur í ljós en ætla má að hluti af fjárhæðinni renni inn í Seðlabankann til að jafna 300 milljarða tapið sem varð á honum í bankastjóratíð Davíðs Oddssonar. Fjármunir fljóta milli ríkissjóðs og Seðlabankans og því skiptir ekki öllu máli hvar ávinningurinn verður staðsettur.


Hluti af þessu er að á Íslandi verða eftir eignarhlutir í Íslandsbanka og Aríon sem nú eru í eigu slitabúana. Þá þarf að koma þeim í verð og það sem meira er: Það þarf að ákveða hverjir fái að kaupa. Verður það gert faglega, t.d. gegnum sölu á Kauphöll Íslands, eða fá vildarvinir flokkanna að velja sér feita bita áður. Það er einmitt það sem margir óttast miðað við annað sem þessi ríkisstjórn hefur leyft sér að gera í sérhagsmunagæslu sinni fyrir hina fáu.


Byggðar hafa verið upp miklar væntingar um að verið sé aflétta gjaldeyrishöftunum og því má ætla að niðurstaðan eigi eftir að valda landsmönnum enn einum vonbrigðunum.


Er verið að afnema gjaldeyrishöftin? Nei.


Er verið að taka skref í rétta átt? Já.


Geta Íslendingar farið frjálst með fjármuni úr landi eftir þessr aðgerðir? Nei.


Hvenær verða gjaldeyrishöftin þá afnumin þannig að unnt verði að flytja fjármuni frjálst úr landi?  Það má guð vita.