Eyþór bálreiður út í flugfélagið SAS: „Það er bara lok, lok, og læs og allt í stáli“

Ey­þóri Kamban Þrastar­syni, eigin­konu hans og ungri dóttur var í morgun meinaður að­gangur í annað skiptið að flugi flug­fé­lagsins SAS frá Grikk­landi til Kaup­manna­hafnar. Ey­þór og kona hans eru bæði blind og segir Ey­þór að á­stæðan sem honum hafi verið gefin hafi verið á þann veg, að blindir for­eldrar mættu ekki ferðast með ungt barn í sinni um­sjá.

„Ég er hérna á flug­vellinum og var að fá í annað skiptið nei. Það er bara lok, lok, og læs og allt í stáli,“ segir Ey­þór í samtali við Fréttablaðið.

Ey­þór, sem er bú­settur í Grikk­landi á­samt fjöl­skyldu sinni, hugðist fljúga heim til Ís­lands og dvelja hjá fjöl­skyldu yfir jólin. Í fyrra fæddist honum og eigin­konu hans lítil stúlka, en hún hefur enn ekki hitt ættingja sína hér á landi.

Fjöl­skyldan átti flug með flug­fé­laginu SAS til Kaup­manna­hafnar síðast­liðinn föstu­dag og segir Ey­þór að það hafi gengið nokkuð klakk­laust fyrir sig að komast í gegnum öryggis­leitina og flug­völlinn. Það hafi hins vegar breyst þegar þau komu að hliðinu, en þá hafi þeim verið meinaður að­gangur að vélinni. Á­stæðan sem þeim hjónum var gefin var sú að það væri öryggis­brestur að blindir for­eldrar væru að ferðast með lítið barn.

Ey­þór segir að í kjöl­farið hafi fjöl­skyldan sóst eftir að­stoð frá Blindra­fé­laginu sem settu sig í sam­band við SAS. Þar fengust þau svör að hægt væri að koma fjöl­skyldunni í næsta flug.

„Við náðum þessu í gegn á einum degi í gær hjá SAS að fá að fljúga til Kaup­manna­hafnar í dag og þaðan með Icelandair til Ís­lands,“ segir Ey­þór.

Það hafi því verið tals­verður skellur í morgun þegar þau mættu á flug­völlinn og hugðust inn­rita sig.

„Núna segja þau að til þess að ferðast verðum við að vera með að­stoðar­manneskju sem við þurfum að borga sjálf. Það virðist vera spurning um hverjum þú lendir á,“ segir Ey­þór, og bætir við:

„Sem þýðir fyrir mig að ég kemst ekki án þess að fljúga ein­hverjum frá Ís­landi hingað til þess að fljúga með okkur og barnið okkar heim til Ís­lands. Ég á ekkert pening til þess.“

Að sögn Ey­þórs hefur hann haft sam­band við borgara­þjónustu utan­ríkis­ráðu­neytisins sem vinni nú að úr­lausn í hans máli. Auk þess sé fjöl­skyldan hans heima á Ís­landi sem og Blindra­fé­lagið að reyna að leita lausna.

„Þetta er ó­lög­legt sam­kvæmt Evrópu­lögum. SAS getur ekki látið mig taka meira fjár­hags­lega á­byrgð, það er mis­munun. SAS verður að redda þessu,“ segir Ey­þór.

Fleiri fréttir