Eyþóri Kamban Þrastarsyni, eiginkonu hans og ungri dóttur var í morgun meinaður aðgangur í annað skiptið að flugi flugfélagsins SAS frá Grikklandi til Kaupmannahafnar. Eyþór og kona hans eru bæði blind og segir Eyþór að ástæðan sem honum hafi verið gefin hafi verið á þann veg, að blindir foreldrar mættu ekki ferðast með ungt barn í sinni umsjá.
„Ég er hérna á flugvellinum og var að fá í annað skiptið nei. Það er bara lok, lok, og læs og allt í stáli,“ segir Eyþór í samtali við Fréttablaðið.
Eyþór, sem er búsettur í Grikklandi ásamt fjölskyldu sinni, hugðist fljúga heim til Íslands og dvelja hjá fjölskyldu yfir jólin. Í fyrra fæddist honum og eiginkonu hans lítil stúlka, en hún hefur enn ekki hitt ættingja sína hér á landi.
Fjölskyldan átti flug með flugfélaginu SAS til Kaupmannahafnar síðastliðinn föstudag og segir Eyþór að það hafi gengið nokkuð klakklaust fyrir sig að komast í gegnum öryggisleitina og flugvöllinn. Það hafi hins vegar breyst þegar þau komu að hliðinu, en þá hafi þeim verið meinaður aðgangur að vélinni. Ástæðan sem þeim hjónum var gefin var sú að það væri öryggisbrestur að blindir foreldrar væru að ferðast með lítið barn.
Eyþór segir að í kjölfarið hafi fjölskyldan sóst eftir aðstoð frá Blindrafélaginu sem settu sig í samband við SAS. Þar fengust þau svör að hægt væri að koma fjölskyldunni í næsta flug.
„Við náðum þessu í gegn á einum degi í gær hjá SAS að fá að fljúga til Kaupmannahafnar í dag og þaðan með Icelandair til Íslands,“ segir Eyþór.
Það hafi því verið talsverður skellur í morgun þegar þau mættu á flugvöllinn og hugðust innrita sig.
„Núna segja þau að til þess að ferðast verðum við að vera með aðstoðarmanneskju sem við þurfum að borga sjálf. Það virðist vera spurning um hverjum þú lendir á,“ segir Eyþór, og bætir við:
„Sem þýðir fyrir mig að ég kemst ekki án þess að fljúga einhverjum frá Íslandi hingað til þess að fljúga með okkur og barnið okkar heim til Íslands. Ég á ekkert pening til þess.“
Að sögn Eyþórs hefur hann haft samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins sem vinni nú að úrlausn í hans máli. Auk þess sé fjölskyldan hans heima á Íslandi sem og Blindrafélagið að reyna að leita lausna.
„Þetta er ólöglegt samkvæmt Evrópulögum. SAS getur ekki látið mig taka meira fjárhagslega ábyrgð, það er mismunun. SAS verður að redda þessu,“ segir Eyþór.