Er sjálfstæðisflokkurinn að hætta í pólitík?

Sjálfstæðisflokkurinn er áttatíu og sex ára í dag.

Náttfari minnist þess þegar Sjálfstæðisflokkurinn var síungur og beinskeyttur í íslenskum stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn var þess vegna einu sinni fjölmennasta félag landsins.

Nú er öldin önnur.

Skoðanakannanir sýna lítinn stuðning við ríkisstjórnina og við Sjálfstæðisflokkinn því flokkurinn hefur ekki lengur heilsteypta stefnu og hann er rúinn trausti. Skoðanakannanir eru reyndar ekki færar um að sýna það sem mest er um vert - að Sjálfstæðisflokkurinn treystir þjóðinni allra flokka síst. Hann hefur ekkert traust á þjóðinni, heilindum hennar og hugrekki.

Sjálfstæðisflokkurinn flakkar með hugsjónir sínar og baráttumál eftir áttavitum sérhagsmuna sjávarútvegs og landbúnaðar. Fráleitt er að flokkurinn lagi stefnu sína og hugsjónir eftir slíkum sérhagsmunum.

Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fipast af tímabundnum sérhagsmunum bænda og fiskimanna ætti flokkurinn að finna sér annan vettvang en atgang stjórnmálalífsins. Það gildir í samskiptum við sérhagsmunina að greiðar og fyrirgreiðsla fyrir þá hagsmuni er vinátta sem er völtust allra.

Sjálfstæðisflokkurinn er í dag hverflyndur og hleypur á eftir tískunni eins og þeir vingulflokkar sem allra minnst hald er í.

Það léttir oddvita flokksins í spori Bjarna Benediktsson formann og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur varaformann að þurfa ekki að burðast með erfið pólitísk mál eins og Evrópumálin.

Evrópuhugsjónir flokksins hafa dagað uppi sem nátttröll!

Flokksmenn fara undan í flæmingi þegar þær hugsjónir og þau baráttumál eru nefnd.

Nú er svo komið að velgengi og velsæld hafa snúist í vesæld og vansæmd.

Kjósendur eru oddvitum flokksins og þingmönnum hans óviðkomandi.

Náttfari leggur til á afmælisdegi Sjálfstæðisflokksins að flokkurinn hætti þessu pólitíska vafstri og feli Veðurstofunni að stjórna landinu með Framsóknarflokknum þar til að til kemur Viðreisn sem tekur við stjórnartaumunum.