Er Katrín Jakobsdóttir að ganga í Sjálfstæðisflokkinn?

Helst bar til tíðinda í 75 ára afmælisveislu fyrir Davíð Oddsson í vikunni að formaður Vinstri grænna ávarpaði Davíð og flutti langbestu ræðuna það kvöldið. Hún skjallaði afmælisbarnið brosandi út að eyrum rétt eins og hún birtist þjóðinni á NATO-fundum. Almennt mæltist ræðumönnum ekki vel, nema Katrínu sem geislaði af velvild í garð sjálfstæðismanna og lagði þunga áherslu á að Davíð væri náfrændi hennar.

Margir gestanna skildu ræðu Katrínar svo að hún væri á barmi þess að ganga í Sjálfstæðisflokkinn og leita þar frama enda er orðið býsna dauflegt um að litast í flokki hennar, Vinstri grænum. Katrín er nú farin að hlýða sjálfstæðismönnum innan ríkisstjórnarinnar nánast í einu og öllu. Gildir það jafnt um bankasöluna, vopnaburð lögreglu, framkomu við flóttafólk og dekur við stórútgerðina með viðvarandi gjafakvóta, svo dæmi séu tekin.

Einhverjir afmælisgestanna fengu svolítinn hroll við að hlýða á ljúfmannlega ræðu Katrínar þegar unnt er að rifja upp að hún átti sæti í vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem lét það verða sitt fyrsta verk í febrúar 2009 að henda Davíð Oddssyni út úr bankastjórastól í Seðlabanka Íslsnds. Katrín stóð að því ásamt öðrum ráðherrum.

Vel á annað hundrað gesta sóttu veisluna þar sem var veitt rausnarlega í mat og drykk af öllu tagi á kostnað eigenda Morgunblaðsins.

Afmælishátíðin fór fram á Edison, fimm stjörnu hótelinu við hlið Hörpu niður við höfn.

Ekki var tilkynnt á samkomunni um að hinn aldni foringi væri að yfirgefa Morgunblaðið eins og jafnvel hafði verið búist við. 

- Ólafur Arnarson.