Prentmiðlar tilheyra veröld sem var

Lestur prentmiðla á Íslandi er á hröðu undanhaldi eins og reyndar víðast hvar um hinn vestræna heim. Þróun á fjölmiðlamarkaði er öll í þá átt að prentmiðlar gefa hratt eftir en netmiðlar eru hvarvetna í mikilli sókn. Sjónvarp og útvarp halda velli. Það gildir þó ekki um áskriftarsjónvarp sem á sífellt erfiðara með að selja áskriftir í samkeppni við ókeypis sjónvarpsstöðvar.

Gallup hefur um árabil mælt lestur prentmiðla á Íslandi. Nýjasta könnun þeirra sýnir minnsta lestur prentmiðla frá upphafi mælinga. Þett gildir um öll blöðin sem um ræðir, þ.e. Fréttablaðið, Morgunblaðið, Fréttatímann, DV og Viðskiptablaðið.

Þessi þróun er grafalvarleg fyrir útgefendur prentmiðlanna því samkeppni á auglýsingamarkaði er hörð og auglýsendur nýta auglýsingafjármuni sína með faglegum hætti. Þeir hafa verið að færa til áherslur frá prentmiðlum yfir á sjónvarp, útvarp, netmiðla, umhverfisauglýsingar og kostun. Mælingar af því tagi sem Gallup birti nýlega gera ekki annað en að hraða enn frekar tilfærslu auglýsingafjár frá prentmiðlum yfir á aðra miðla.

Fréttablaðið ber áfram höfuð og herðar yfir aðra prentmiðla á Íslandi en blaðinu er dreift frítt í 90.000 eintökum um land allt. Rúmlega 50% landamanna yfir 18 ára aldri lesa Fréttablaðið sem er þó talsvert minna en verið hefur. Lestur FB er á niðurleið eins og hjá hinum blöðunum. Nýlega var ráðist í breytingar á blaðinu sem gætu átt eftir að gagnast útgáfunni við að snúa vörn í sókn. Það á eftir að koma í ljós.

Hrun Morgunblaðsins er þó mest áberandi. Þetta 102 ára gamla blað hefur aldrei mælst með minni lestur en nú. Einungis 28% Íslendinga 18 ára og eldri lesa Morgunblaðið. Það er í fyrsta skipti sem hlutfallið fer niður fyrir 30%. Árið 2009, þegar nýjir eigendur tóku við blaðinu eftir milljarða skuldaniðurfellingar, lásu 43% landsmanna blaðið. Þá voru ráðnir nýjir ritstjórar, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen. Í ritstjóratíð þeirra hefur stefnu blaðsins verið breytt þannig að hún er mjög höll undir þrönga sérhagsmuni eigenda þess sem flestir komu úr sjávarútvegi og landbúnaði. Þá er ritstjórnarstefnan hatrömm gegn útlöndum og útlendingum, einkum þó Evrópusambandinu. Þá hefur Davíð Oddsson leyft sér að nýta blaðið til að reyna að fegra eigin ímynd en hann er eins og kunnugt er einn helsti orsakavaldur hrunsins árið 2008 en í bankastjóratíð hans í Seðlabankanum varð bankinn gjaldþrota upp á 300 milljarða króna. Sá skellur lenti á þjóðinni í gegnum ríkissjóð sem varð að hlaupa undir bagga með Seðlabankanum og leggja honum til fjármuni úr ríkissjóði.

Frá árinu 2009 hefur Morgunblaðið farið úr 43% niður í 28% lestur, skv., Gallup, sem jafngildir því að 35% lesenda blaðsins árið 2009 hafi yfirgefið það. Heimildarmenn Náttfara innan Morgunblaðsins segja að þar á bæ sé andrúmsloftið mjög þungt út af þessari þróun. Sömu heimildir herma að áskrifendur séu komnir niður í 18.500 en þeir voru yfir 30 þúsund þegar Davíð og félagar tóku við. Um aldamótin síðustu voru áskifendur Morgunblaðsins 55 þúsund þannig að hrunið er afgerandi og tilfinnanlegt. Heimildarmenn Náttfara telja að þessari vondu þróun verði ekki snúið við á meðan Davíð situr á ritstjórastóli Morgunblaðsins. Ástandið á einungis eftir að versna. Ekki er talið að neitt fararsnið sé á Davíð og einhverra hluta vegna þora eigendurnir ekki að hrófla við honum. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig.

Fréttatíminn hefur einnig misst mikið. Þegar best lét var lestur þessa vikublaðs 42% en var í síðustu könnun kominn niður í 36%. Þetta er vitanlega vond þróun en þó ekki hrun eins og hjá Morgunblaðinu. Viðskiptablaðið er einnig á niðurleið og komið í 11% lestur. Blaðið er sérhæft á sínu sviði og hefur aldrei haft mikla dreifingu eða mikinn lestur.

Loks er að nefna að DV nær sögulegum botni. Lestur DV nú er sá minnsti í 40 ára sögu blaðsins. DV kemur út tvisvar í viku og mælist einungis með 7% lestur meðal Íslendinga yfir 18 ára aldri. Eftir að átök urðu um blaðið árið 2014 og Reyni Traustasyni og félögum var ýtt þaðan út, hefur lestur blaðsins dregist gríðarlega mikið saman. Lesendur skilja ekki ritstjórnarstefnu DV lengur, ef hún er þá einhver. Ljóst er að blaðið er rekið með það að markmiði að koma í veg fyrir gagnrýni á Framsóknarflokkinn og ríkisstjórnina. Stefnan er óljós og efnið óspennandi. Það leiðir til þess að áhugi lensenda á blaðinu fer stöðugt minnkandi og er kominn niður undir frostmark.