Búið að seljann?

Hvað er að gerast hjá ríkisútvarpinu?

Ríkisvaldið og núverandi stjórnarflokkar passa vel upp á peningahliðina. Samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum fær stofnunin á sjötta milljarð króna til ráðstöfunar árið 2022. Ekki dugar það samt til að halda í marga af þekktari starfsmönnum stofnunarinnar. Rakel Þorgbergsdóttir, fréttastjóri, sagði óvænt upp og kvaddi vinnustaðinn með tárum á gamlársdag. Hún er alls ekki sú fyrsta. Fjölmargir þekktir hafa horfið til annarra starfa á stuttum tíma. Má þar nefna Aðalstein Kjartansson sem fór á Stundina, Láru Ómarsdóttur sem fór til Aztiq, fjárfestingarfélags Róberts Wessmann, Millu Ósk Magnúsdóttur, sem varð aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur í menntamálaráðuneytinu, og Einar Þorsteinsson, sem tilkynnti starfslok nýlega.

Og nú er Helgi Seljan hættur og farinn á Stundina. Margir spyrja þá: Hvað verður um ríkisútvarpið? Svipað og gerðist þegar forseti Bandaríkjanna, Kennedy, var skotinn í Dallas: Þá spurði gömul tárvot kona: Hvað verður nú um Jacqueline og börnin? Von er að spurt sé. Hvað verður um ríkisútvarpið?

Helgi Seljan hefur verið heiðraður sem „blaðamaður ársins“ fyrir að ganga harðar fram en aðrir gegn fólki og fyrirtækjum og lengra. Iðulega hefur fréttaflutningur Helga verið samstarfsverkefni ríkisfréttastofunnar og Stundarinnar sem hann gerist nú „rannsóknarritstjóri“ hjá. Þar eru fyrir á fleti einhverjir gamlir samstarfsmenn af ríkisstofnuninni. Raunar vekur það sérstaka athygli að ítrekað skuli fréttamenn af ríkisútvarpinu kjósa að yfirgefa hlýju og öryggi ríkisjötunnar til að fara á lítinn einkarekinn miðil að sinna svipuðum verkefnum og þeir áður sinntu hjá ríkisstofnuninni.

Einnig hlýtur það að vekja athygli hve óljós mörkin milli ríkisfréttastofunnar, með alla sína milljarða frá skattgreiðendum, og gulu pressunnar á Stundinni eru. Á köflum hefur jafnvel mátt ætla að fréttastjórn ríkisútvarpsins sé ekki staðsett í Efstaleiti heldur inni á ritstjórn Stundarinnar. Er mikið brottfall fréttamanna af stofnuninni og flutningur fréttamanna þaðan á Stundina ef til vill hægfara sameining fréttastofu ríkisins og Stundarinnar undir forystu Stundarinnar?

Er þetta kannski ástæða þess að ekki hefur enn verið auglýst eftir nýjum fréttastjóra á ríkisfréttastofunni? Engin þörf sé á því. Helgi Seljan sé nýr fréttastjóri ríkisútvarpsins með aðsetur á Stundinni.

- Ólafur Arnarson