Brynjar minnist vinkonu sinnar: „Ég sakna Kaju mjög mikið“

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður ráðherra og fyrrverandi þingmaður, skirfaði fallega minningargrein á Facebook um vinkonu sína Karitas H. Gunnarsdóttur, fyrrverandi skrifstofustjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem var borin til grafar á dögunum.

„Við kynntumst fyrir alvöru þegar við lentum saman i árgangi í lagadeild Háskóla Íslands. Kaja, eins og hún var gjarnan kölluð, var ein af þessum aumingjagóðu bekkjarsystrum mínum sem lögðu mikið á sig til að koma mér til manns.“ skrifar Brynjar og bætir við: „Ein þeirra tók meira að segja að sér að giftast mér eftir útskrift til að tryggja samfellu í verkefninu og viðunandi árangur.“

Brynjar ræðir síðan kosti Karitasar, og hvernig þau tvö voru ólík.

„Þrátt fyrir að vera góðir vinir vorum við Kaja mjög ólík. Hún var blanda af veraldarvönum heimsborgara og drottningu í ríki sínu meðan ég hef alltaf verið meiri afdalamaður þjakaður af þráhyggju í bland við almenna sérvisku. Kaja var góð kona sem þótti vænt um fólk, raunverulegur mannvinur. Hún var skemmtileg og glaðsinna og kunni að samgleðjast öðrum. Kaja var samkvæmisljón og partýin voru síðri og styttri þegar hún var forfölluð. Hún var trúr og traustur vinur og treystandi fyrir öllum leyndarmálum. Eina sem var líkt með okkur var að við gátum bæði verið stundum hreinskiptin í samskiptum við annað fólk. Munurinn var samt sá að hún var hreinskiptin þegar það átti við en ég þegar ekki var staður og stund til þess. Það hefur víst eitthvað með tilfinningagreind að gera.“

Færsla Brynjars endar á fallegum lokaorðum, þar sem hann segist sakna vinkonu sinnar mjög mikið, og á meðan hann skrifi þau renni tárin niður.

„Ég sakna Kaju mjög mikið og það er erfitt að pikka þessi orð á lyklaborðið þegar tárin renna niður í stríðum straumi. Innilegar samúðarkveðjur til Kjartans, eiginmanns hennar og besta vinar og til allrar fjölskyldunnar. Karitas Halldóra Gunnarsdóttir mun svífa yfir vötnunum og aldrei gleymast.“

Fleiri fréttir