Bræður með borgarstjóra á heilanum

Þeir sjálfstæðismenn sem mestan áhuga hafa á borgarmálum í Reykjavík vita ekkert hvernig þeir eiga að haga sér og vanlíðan þeirra vegna valdaleysis flokksins í borginni er æpandi.

Allt frá árinu 1994 hefur flokkurinn verið valdalaus í borgarstjórn Reykjavíkur, ef undan er skilið kjörtímabilið 2006 til 2010 þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson náði þeim árangri í kosningum að koma flokknum til valda og verða borgarstjóri í tæplega eitt og hálft ár þar til flokksmenn hans í borgarstjórnarflokknum sviku þannig að mynda þurfti þrjá aðra borgarstjórnarmeirihluta út kjörtímabilið. Að þessu slepptu hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið valdalaus í minnihluta í borginni í aldarfjórðung.

Þorri flokksmanna sættir sig við þetta ástand og horfist í augu við stöðuna. Engu að síður eru ákveðnir aðilar nánast viti sínu fjær af svekkelsi vegna þessa ástands. Sumir þeirra ráða ekki við sig og standa fyrir orðræðu í hverri viku sem er þeim ekki til mikils vegsauka. Sá háværasti um þessar mundir er Kjartan Magnússon borgarfulltrúi valdalausa minnihlutans. Hann hikar ekki við að slá fram yfirlýsingum sem oftar en ekki fá engan veginn staðist og jaðra stundum við atvinnuróg og ærumeiðingar.

Kjartan virðist vera með þráhyggju gagnvart Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og á greiðan aðgang að Morgunblaðinu með málflutning sinn, en þar er fyrir á fleti Andrés Magnússon, bróðir hans, sem lætur sitt ekki eftir liggja varðandi skæting í garð borgarstjórnarmeirihlutans. Birtist það stundum í „fréttum“, eða í nafnlausum skrifum og jafnvel skrifum undir fullu nafni. Dæmi um hið síðastnefnda mátti lesa í Morgunblaðinu þann 30. apríl þar sem Andrés telur upp fréttir vikunnar. Segir þar meðal annars:

„Reykjavíkurborg kynnti ársreikning sinn og þar blasti rekstrarafhroð við, tap borgarsjóðs nær sexfalt meira en áætlanir sögðu til um, útgjöld og skuldir hækkuðu.“

REKSTRARAFHROÐ er stórt orð – jafnvel nýyrði. En þetta er í anda þess sem allra svekktustu sjálfstæðismenn hafa notað að undanförnu í umfjöllun sinni um borgarmálin. Þeir virðast vera rökþrota og bregða þá á það ráð að slá fram ávirðingum og endurtaka þær til þess að reyna að koma því inn hjá borgarbúum – kjósendum – að borgin sé í fjárhagslegu öngþveiti.

Hildur Björnsdóttir, sem leiddi lista Sjálfstæðisflokksins vorið 2022 til áframhaldandi stjórnarandstöðu, lét svo um mælt að Einar Þorsteinsson, leiðtogi Framsóknar í borginni sem tekur við embætti borgarstjóra í byrjun árs 2024, yrði ekki borgarstjóri heldur SKIPTASTJÓRI. Hún var með öðrum orðum að gefa til kynna að Reykjavíkurborg – stöndugasta sveitarfélag landsins – væri á leiðinni í gjaldþrot! Þarna er er ferðinni mjög alvarlegur atvinnurógur. Engan veginn er boðlegt að kjörinn borgarfulltrúi leyfi sér að slá öðru eins fram. Hildur Björnsdóttir var ekki valin af borgarbúum til að rakka borgina niður. Hún var valin til að gera gagn. Þó að hún sé í fýlu yfir því að hafa ekki fengið að gerast borgarstjóri leyfist henni ekki að koma fram með þessum hætti. Berin eru súr, sagði Mikki refur þegar hann gat ekki náð þeim.

Gera verður meiri kröfur til Hildar sem leiðtoga minnihlutans heldur en Kjartans Magnússonar.

Andrés Magnússon notaði orðið REKSTRARAFHROÐ í Morgunblaðinu. Fyrir liggur að afkoma borgarinnar, eins og annarra sveitarfélaga, hefði orðið betri ef ríkisstjórn Íslands hefði sæmileg tök á efnahagsmálum þjóðarinnar – sem hún hefur ekki. Verðbólga er komin í 10 prósent og vextir hafa hækkað stöðugt og hækka enn. Sveitarfélögin bera ekki ábyrgð á stjórn efnahagsmála í landinu. Það gerir ríkisstjórnin, ekki síst fjármálaráðherrann sem hittist þannig á að er samflokksmaður þeirra bræðra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Væri ekki ráð að ræða um efnahagsóstjórn landsins við hann? Væri ekki ráð að velta fyrir sér taumlausri skuldasöfnun ríkisins undir forystu hans? Vill Andrés ekki fjalla um það í blaði sínu hve langan tíma það tók Bjarna Benediktsson að auka skuldir ríkisins um þúsund milljarða króna? Það tók hann aðeins þrjú ár að „afreka“ það!

Rekstur borgarinnar árið 2022 skilaði 6 milljarða króna hagnaði eins og fram kemur í ársreikningi borgarinnar sem sýnir A og B-hluta samtals, enda er það eini marktæki mælikvarðinn á heildarrekstur og heildarafkomu borgarsjóðs. Sá sem kallar slíka afkomu afhroð kann ekki að greina fjárhæðir í ársreikningum enda er það ekki öllum gefið.

Nánast öll sveitarfélög landsins kvarta undan því að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga fái ekki staðist. Sveitarfélögin hafa tekið að sér aukin verkefni samkvæmt lögum en skatttekjur hafa ekki fylgt með frá ríkinu eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Um þetta hefur verið rætt árum saman og um þetta hefur verið deilt án þess að niðurstaða hafi fengist. Þetta veldur sveitarfélögunum vanda. Ekki er hægt að kenna slæmum rekstri um. Hér er um kerfisvillu að ræða sem þarf að lagfæra og hlýtur að verða lagfærð á næstunni. Sveitarfélögin munu ekki láta bjóða sér upp á þetta lengur. Þá þurfa öll sveitarfélög landsins á því að halda að ríkisstjórn Íslands sinni sómasamlega því grundvallarhlutverki sínu að stýra efnahagsmálum þjóðarinnar á ábyrgan hátt. Mikið hefur vantað upp á það. Þess vegna bítur verðbólga og okurvextir sveitarfélög rétt eins og ríkissjóð sjálfan, fyrirtækin og fólkið í landinu.

Þó að bræðurnir gelti að borgarstjóranum og Morgunblaðið sé með hann á heilanum virðist það ekki hafa mikil áhrif á kjósendur eins og glögglega kom fram í nýlegri skoðanakönnun Maskínu.

Miðað við þá könnun bætir flokkur borgarstjórans við sig sjö prósentustigum frá kosningum og tveimur borgarfulltrúum. Viðreisn og Píratar bæta einnig myndarlega við sig á meðan Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað. Samkvæmt þessari könnun er ekki merkjanleg eftirspurn eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn fái stærra hlutverk við stjórnun Reykjavíkurborgar en verið hefur. Kjósendur vilja halda flokknum áfram úti í kuldanum og telja hann best geymdan þar.

- Ólafur Arnarson