Bók Lárusar Welding gæti valdið straumhvörfum

Uppgjör bankamanns eftir Lárus Welding fyrrum bankastjóra er ein athyglisverðasta bókin sem komið hefur út fyrir þessi jól. Lárus var bankastjóri Íslandsbanka í 17 mánuði fyrir bankahrunið haustið 2008. Síðan hefur hann þurft að glíma við kerfið á Íslandi í 14 ár. Hann gerir upp þennan krefjandi tíma af mikilli hreinskilni og fjallar um þau átök sem staðið hafa allan þennan tíma.

Bók Lárusar er mikilvægt innlegg í umræðuna um aðdraganda bankahrunsins og afleiðingar þess. Umræðan hefur að mestu verið einsleit og ómakleg í garð fólksins sem stýrði bönkum og öðrum stærri fyrirtækjum hérlendis á þessum óvanalegu og krefjandi tímum. Margt hefur verið ritað um þennan tíma en þetta er í fyrsta skipti sem bankastjóri stígur fram og segir sína hlið á bankahruninu hér á landi. Eftir lestur bókarinnar stendur upp úr að rannsóknaraðilar og dómskerfið fóru æði oft út af sporinu og svo virðist sem dómstólar hafi gjarnan, að kröfu saksóknara og rannsóknaraðila, vikið frá því grundvallaratriði að dæma einungis eftir gildandi lögum en ekki eftir andrúmsloftinu í þjóðfélaginu.

Eins og menn muna kröfðust ýmsir stjórnmálamenn sakfellinga, jafnvel án dóms og laga, og fengu stuðning við þeim kröfum víða úr þjóðfélaginu. Skipuleg mótmæli stóðu yfir í langan tíma þar sem mótmælendur töldu sig höndla sannleikann og voru ekki sparir á kröfur um þungar refsingar þeirra sem höfðu verið í forsvari. Þeir fengu mikinn stuðning fjölmiðla sem sumir hverjir gengu hart fram, ekki síst sjálft ríkissjónvarpið og útvarpið sem eru í eigu þjóðarinnar og hafa skýrar reglur um að gæta sanngirni og hlutleysis. Því miður fór því fjarri að þannig tækist til hjá ríkisfjölmiðlinum sem beinlínis skipaði sér í lið árum saman. Sú framganga öll er hneyksli. Það mál er óuppgert.

Lárus Welding lýsir því í bók sinni hvernig sótt hefur verið að honum í 14 ár. Hann hefur fengið það hlutverk að þurfa að verja hendur sínar allan þennan tíma í mikilvægu samstarfi við öfluga lögmenn sem hafa barist með honum og haft meira og minna fulla sigra gegn ósanngjörnum ásökunum og kröfum kerfisins. Lárus er ekki sá eini sem hefur þurft að mæta slíkum örlögum á Íslandi. Hingað til hefur þetta fólk ekki treyst sér til að stíga fram og segja sína hlið á málum. Brýnt er að það láti frá sér heyra. Hér er um að ræða mjög merkilegan og sorglegan tíma í lífi þjóðarr. Mikilvægt er að sagan verði sögð á réttan og sanngjarnan hátt og það kallar á að fleiri hliðar en ein komi fram. Lárus ryður nú brautina og ætla má að aðrir komi í kjölfar hans og bæti við sjónarmiðum og upplýsingum. Þannig gæti bók Lárusar átt eftir að valda straumhvörfum varðandi umjöllun um bankahrunið á Íslandi.

Landsmenn verðskulda að fá að heyra sannleikann frá öllum hliðum um mörg þau atriði sem réðu úrslitum um hrunið og framvinduna eftir það. Ljóst er að embætti sérstaks saksóknara hefur gert fjölmörg mistök og virðist á köflum hafa misskilið hlutverk sitt. Þannig hafa sumar aðferðir embættisins verið fyrir neðan allar hellur og tekið mið af hatursfullum ráðleggingum refsinornarinnar Evu Joly sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar flutti inn frá útlöndum, réð í hlutastarf í fáein misseri og greiddi henni á annað hundrað milljónir króna fyrir. Hún lagði fyrst og fremst til að ráðist yrði gegn bankamönnum í þeim tilgangi að taka þá opinberlega af lífi í fjölmiðlum því að það væri fljótlegri og skilvirkari leið en að notast við lög og rétt. Þá eru nefnd mörg dæmi þess að dómar í málum bankamannana voru oft einkennilegir, einkum þegar vikið var frá því að dæma eingöngu eftir lögunum og hlustað á þann ríka refsianda sem einkenndi þjóðfélagsumræðuna. Einnig er mjög athyglisvert að heyra lýsingar Lárusar á samskiptum hans við yfirmenn Seðlabanka Íslands og suma ráðherra. Margir telja að oft hafi skort yfirvegun á þeim vettvangi, einkum í Seðlabankanum sem margir telja að hafi ýtt hruninu af stað með vanhugsuðum ákvörðunum sínum.

Bók Lárusar er þakkarvert framtak.

- Ólafur Arnarson.